Icelandic
A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z

Lynparza (olaparib) – Fylgiseðill - L01

Updated on site: 08-Oct-2017

Nafn lyfsLynparza
ATC-kóðiL01
Efniolaparib
FramleiðandiAstraZeneca AB

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir sjúkling

Lynparza 50 mg hörð hylki

Olaparib

Þetta lyf er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Allir geta hjálpað til við þetta með því að tilkynna aukaverkanir sem koma fram. Aftast í kafla 4 eru upplýsingar um hvernig tilkynna á aukaverkanir.

Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum eru mikilvægar upplýsingar.

-Geymið fylgiseðilinn. Nauðsynlegt getur verið að lesa hann síðar.

-Leitið til læknisins, lyfjafræðings eða hjúkrunarfræðingsins ef þörf er á frekari upplýsingum.

-Þessu lyfi hefur verið ávísað til persónulegra nota. Ekki má gefa það öðrum. Það getur valdið þeim skaða, jafnvel þótt um sömu sjúkdómseinkenni sé að ræða.

-Látið lækninn, lyfjafræðing eða hjúkrunarfræðinginn vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Sjá kafla 4.

Í fylgiseðlinum eru eftirfarandi kaflar:

1.Upplýsingar um Lynparza og við hverju það er notað

2.Áður en byrjað er að nota Lynparza

3.Hvernig nota á Lynparza

4.Hugsanlegar aukaverkanir

5.Hvernig geyma á Lynparza

6.Pakkningar og aðrar upplýsingar

1. Upplýsingar um Lynparza og við hverju það er notað

Upplýsingar um Lynparza og verkun þess

Lynparza hörð hylki innihalda virka efnið olaparib. Olaparib er af tegund krabbameinslyfja sem kölluð eru PARP (fjöl [adenosine diphosphate-ríbósa] pólýmerasa) hemlar.

Hjá sjúklingum með stökkbreytingar (breytingar) í ákveðnum genum sem kallast BRCA (brjóstakrabbameinsgen), sem eru í hættu að fá ákveðnar tegundir krabbameins, geta PARP hemlar valdið dauða krabbameinsfrumna með því að stöðva ensím sem tekur þátt í DNA-viðgerð.

Notkun Lynparza

Lynparza er notað til meðferðar á ákveðinni tegund krabbameins í eggjastokkum sem kallað er „krabbamein í eggjastokkum með BRCA stökkbreytingu“. Það er notað þegar krabbameinið hefur svarað hefðbundinni krabbameinslyfjameðferð sem byggist á platínu. Gert er próf til þess að ákvarða hvort um krabbamein með BRCA stökkbreytingu sé að ræða.

2. Áður en byrjað er að nota Lynparza

Ekki má nota Lynparza:

-ef um er að ræða ofnæmi fyrir olaparibi eða einhverju öðru innihaldsefni lyfsins (talin upp í kafla 6).

Ekki nota Lynparza ef eitthvað af ofangreindu á við þig. Ræddu við lækninn, lyfjafræðing eða hjúkrunarfræðinginn áður en þú notar Lynparza ef þú ert ekki viss.

Varnaðarorð og varúðarreglur

Leitið ráða hjá lækninum, lyfjafræðingi eða hjúkrunarfræðingnum áður en eða á meðan Lynparza er notað:

Ef komið hefur í ljós í blóðprufum að þú ert með of fá blóðkorn. Þetta getur verið fækkun rauðra blóðkorna (blóðleysi), fækkun hvítra blóðkorna (daufkyrningafæð) eða fækkun blóðflagna (blóðflagnafæð). Sjá kafla 4 fyrir frekari upplýsingar um þessar aukaverkanir. M.a. einkenni sem þarf að vera vakandi fyrir (hiti eða sýking, mar eða blæðingar). Mjög sjaldan getur þetta bent til alvarlegri vandamála tengd beinmerg t.d. mergrangvaxtarheilkenni eða brátt mergfrumuhvítblæði. Hugsanlega gerir læknirinn rannsóknir á beinmerg til þess að ganga úr skugga um þetta.

Ef nýtilkomin eða versnandi einkenni mæði, hósta eða hvæsandi öndunar koma fram. Hjá örfáum sjúklingum sem hafa fengið meðferð með Lynparza hefur verið greint frá bólgu í lungum ( millivefslungnabólga). Millivefslungnabólga er alvarlegur sjúkdómur sem oft krefst meðhöndlunar á sjúkrahúsi.

Ef eitthvað af ofangreindu á við (eða ef þú ert ekki viss) skaltu leita upplýsinga hjá lækninum, lyfjafræðingi eða hjúkrunarfræðingnum.

Próf og rannsóknir

Læknirinn athugar blóðið áður en meðferð með Lynparza hefst og meðan á henni stendur.

Blóðpróf eru tekin:

fyrir meðferð

á mánaðarfresti fyrsta ár meðferðarinnar

með reglulegu millibili samkvæmt ákvörðun læknisins að loknu fyrsta ári meðferðarinnar.

Ef fækkun blóðkorna verður mjög mikil getur þú hugsanlega þurft á blóðgjöf að halda (getur verið blóð eða blóðhlutar frá blóðgjafa).

Notkun annarra lyfja samhliða Lynparza

Látið lækninn, lyfjafræðing eða hjúkrunarfræðinginn vita um öll önnur lyf sem eru notuð, hafa nýlega verið notuð eða kynnu að verða notuð. Þar á meðal lyf sem fengin eru án lyfseðils eða náttúrulyf. Þetta er vegna þess að Lynparza getur haft áhrif á verkun annarra lyfja. Önnur lyf geta einnig haft áhrif á verkun Lynparza.

Ekki má nota Lynparza samhliða öðrum krabbameinslyfjum. Láttu lækninn, lyfjafræðing eða hjúkrunarfræðinginn vita ef bólusetning er fyrirhuguð eða gjöf lyfja sem bæla ónæmiskerfið, þar sem þá gæti þurft að fylgjast náið með þér.

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita ef þú tekur einhver af eftirtöldum lyfjum:

itraconazol, fluconazol – notuð við sveppasýkingum

telithromycin, clarithromycin, erythromycin – notuð við bakteríusýkingum

próteasahemla, örvaða með ritonaviri eða cobicistati, boceprevir, telaprevir, nevirapin, efavirenz - notuð við veirusýkingum, þar á meðal HIV

rifampicin, rifapentin, rifabutin - notuð við bakteríusýkingum, þar á meðal berklum

phenytoin, carbamazepin, phenobarbital – notuð sem róandi lyf eða við krömpum og flogaveiki

jóhannesarjurt (Hypericum perforatum) – náttúrulyf aðallega notað við þunglyndi

digoxin, diltiazem, furosemid, verapamil, valsartan – notuð við hjartakvillum eða háum blóðþrýstingi

bosentan – notað við lungnaháþrýstingi

statín, til dæmis simvastatin, pravastatin – notað til að lækka kólesteról í bóði

dabigatran – notað til að þynna blóðið

glibenclamid, metformin, repaglinid – notuð til að meðhöndla sykursýki

ergot alkalóíðar – notað til að meðhöndla mígreni og höfuðverk

fentanyl – notað við verkjum tengdum krabbameini

pimozid – notað til að meðhöndla geðklofa

quetiapin – notað til að meðhöndla geðklofa og geðhvarfasýki

cisaprid – notað til að meðhöndla vandamál í maga

colchicin – notað til að meðhöndla þvagsýrugigt

ciclosporin, sirolimus, tacrolimus – notuð til að bæla ónæmiskerfið

methotrexat – notað til að meðhöndla krabbamein, liðagigt og sóra (psoriasis)

Notkun Lynparza með drykk

Ekki drekka greipaldinsafa allan tímann meðan á meðferð með Lynparza stendur. Hann getur haft áhrif á verkun lyfsins.

Meðganga og brjóstagjöf

Þú átt ekki að nota Lynparza á meðgöngu eða ef þungun er fyrirhuguð. Það er vegna þess að lyfið gæti skaðað fóstrið.

Þú átt að forðast að verða þunguð meðan á meðferð stendur. Þú átt að nota örugga getnaðarvörn meðan lyfið er notað og í einn mánuð eftir að þú færð síðasta skammtinn af Lynparza. Ekki er vitað hvort Lynparza hafi áhrif á verkun sumra hormónagetnaðarvarna til inntöku. Segðu lækninum ef þú notar getnaðarvarnir til inntöku þar sem hann gæti ráðlagt þér að bæta við getnaðarvörn án hormóna.

Gera á þungunarpróf áður en meðferð með Lynparza hefst og reglulega meðan á henni stendur og í einn mánuð eftir að þú færð síðasta skammtinn af Lynparza. Ef þú verður þunguð á þessu tímabili áttu tafarlaust að hafa samband við lækninn.

Ekki er vitað hvort Lynparza skilst út í brjóstamjólk. Ekki má vera með barn á brjósti meðan Lynparza er notað og í einn mánuð eftir að þú færð síðasta skammtinn af Lynparza. Segðu lækninum ef þú ráðgerir að vera með barn á brjósti.

Akstur og notkun véla

Lynparza getur haft áhrif á hæfni til aksturs og notkunar véla. Ef sundl, máttleysi eða þreyta kemur fram meðan á notkun Lynparza stendur á hvorki að aka né nota tæki og vélar.

3.Hvernig nota á Lynparza

Notið lyfið alltaf eins og læknirinn, lyfjafræðingur eða hjúkrunarfræðingur hefur sagt til um. Ef ekki er ljóst hvernig nota á lyfið skal leita upplýsinga hjá lækninum, lyfjafræðingi eða hjúkrunarfræðingi.

Hve mikið á að taka

Ráðlagður skammtur er 8 hylki (400 mg) tvisvar á dag til inntöku (alls 16 hylki á dag). Mikilvægt er að þú takir allan ráðlagða dagskammtinn og haldir því áfram samkvæmt fyrirmælum læknisins, lyfjafræðings eða hjúkrunarfræðingsins. Læknirinn gæti ávísað öðrum skammti ef þú er með nýrnakvilla.

Hvernig á að taka

Taktu inn einn skammt (8 hylki) af Lynparza með vatni, einu sinni að morgni og einu sinni að kvöldi.

Taktu Lynparza að minnsta kosti einni klst. eftir máltíð. Þú mátt helst ekki borða í allt að 2 klst. eftir töku Lynparza.

Læknirinn gæti sagt þér að taka minni skammta af Lynparza ef þú finnur fyrir aukaverkunum.

Ef tekinn er stærri skammtur en mælt er fyrir um

Ef of stór skammtur af Lynparza hefur verið tekinn á samstundis að hafa samband við lækninn eða næsta sjúkrahús.

Ef gleymist að taka Lynparza

Ef skammtur af Lynparza gleymist á að taka næsta skammt samkvæmt áætlun. Ekki á að tvöfalda skammt til að bæta upp skammt sem gleymst hefur að taka.

Leitið til læknisins, lyfjafræðings eða hjúkrunarfræðingsins ef þörf er á frekari upplýsingum um notkun lyfsins.

4.Hugsanlegar aukaverkanir

Eins og við á um öll lyf getur þetta lyf valdið aukaverkunum en það gerist þó ekki hjá öllum. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir hvaða aukaverkanir þetta geta verið.

Læknirinn getur einnig ávísað öðrum lyfjum til þess að ná stjórn á aukaverkunum.

Láttu lækninn tafarlaust vita ef einhver eftirtalinna aukaverkana kemur fram – meðferð getur verið aðkallandi:

Mjög algengar (geta komið fyrir hjá fleiri en 1 af hverjum 10 einstaklingum):

hiti eða sýking – þetta geta verið merki um of fá hvít blóðkorn (daufkyrningafæð eða eitilfrumnafæð).

mæði, mikil þreytutilfinning, fölvi eða hraður hjartsláttur - þetta geta verið merki um of fá rauð blóðkorn (blóðleysi).

Algengar (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 10 einstaklingum):

mar eða blæðing sem varir lengur en venjulega ef þú hefur meitt þig - þetta getur verið merki um of fáar blóðflögur (blóðflagnafæð).

Láttu lækninn tafarlaust vita ef þú tekur eftir einhverjum þessara aukaverkana sem taldar eru upp hér að ofan.

Aðrar aukaverkanir eru meðal annars:

Mjög algengar

höfuðverkur

sundl

lystarleysi

þreytu – eða máttleysistilfinning

ógleði

uppköst

breytt bragðskyn

meltingartruflanir eða brjóstsviði

niðurgangur. Láttu lækninn tafarlaust vita ef hann verður svæsinn

aukið kreatínín í blóði, kemur fram í rannsóknaniðurstöðum og gefur til kynna hversu vel nýrun starfa

niðurstöður blóðprófa sem sýna aukna stærð rauðra blóðkorna.

Algengar

eymsli í munni (munnbólga)

verkur í kvið, undir rifbeinum.

Látið lækninn, lyfjafræðing eða hjúkrunarfræðinginn vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Læknirinn gæti ávísað lyfið til að meðhöndla einkenni eins og t.d. ógleði, uppköst, niðurgang og meltingartruflanir.

Tilkynning aukaverkana

Látið lækninn, lyfjafræðing eða hjúkrunarfræðinginn vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Einnig er hægt að tilkynna aukaverkanir beint samkvæmt fyrirkomulagi sem gildir í hverju landi fyrir sig, sjá Appendix V. Með því að tilkynna aukaverkanir er hægt að hjálpa til við að auka upplýsingar um öryggi lyfsins.

5.Hvernig geyma á Lynparza

Geymið lyfið þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ekki skal nota lyfið eftir fyrningardagsetningu sem tilgreind er á öskjunni og glasinu á eftir EXP. Fyrningardagsetning er síðasti dagur mánaðarins sem þar kemur fram.

Geymið ekki við hærri hita en 30°C.

Ekki má skola lyfjum niður í frárennslislagnir eða fleygja þeim með heimilissorpi. Leitið ráða í apóteki um hvernig heppilegast er að farga lyfjum sem hætt er að nota. Markmiðið er að vernda umhverfið.

6.Pakkningar og aðrar upplýsingar

Lynparza inniheldur

Virka innihaldsefnið er olaparib. Hvert hart hylki inniheldur 50 mg af olaparibi.

Önnur innihaldsefni (hjálparefni) eru:

Hylkið inniheldur: lauroyl macrogol-32 glýseríð.

Hylkisskel: hýprómellósi, títantvíoxíð (E171), gellangúmmí (E418), kalíumasetat.

Blek: shellakk, svart járnoxíð (E172).

Lýsing á útliti Lynparza og pakkningastærðir

Lynparza er hvítt ógegnsætt, hart hylki merkt „OLAPARIB 50 mg“ og kennimerki AstraZeneca með svörtu bleki.

Lynparza er í HDPE plastglösum með 112 hörðum hylkjum. Ein pakkning inniheldur 448 hylki (4 glös hvert með 112 hylkjum).

Markaðsleyfishafi

AstraZeneca AB

SE-151 85 Södertälje

Svíþjóð

Framleiðandi

AstraZeneca UK Limited

Silk Road Business Park

Macclesfield, Cheshire, SK10 2NA

Bretland

Hafið samband við fulltrúa markaðsleyfishafa á hverjum stað ef óskað er upplýsinga um lyfið:

België/Belgique/Belgien

Lietuva

AstraZeneca S.A./N.V.

UAB AstraZeneca Lietuva

Tel: +32 2 370 48 11

Tel: +370 5 2660550

България

Luxembourg/Luxemburg

АстраЗенека България ЕООД

AstraZeneca S.A./N.V.

Тел.: +359 24455000

Tél/Tel: +32 2 370 48 11

Česká republika

Magyarország

AstraZeneca Czech Republic s.r.o.

AstraZeneca Kft.

Tel: +420 222 807 111

Tel.: +36 1 883 6500

Danmark

Malta

AstraZeneca A/S

Associated Drug Co. Ltd

Tlf: +45 43 66 64 62

Tel: +356 2277 8000

Deutschland

Nederland

AstraZeneca GmbH

AstraZeneca BV

Tel: +49 41 03 7080

Tel: +31 79 363 2222

Eesti

Norge

AstraZeneca

AstraZeneca AS

Tel: +372 6549 600

Tlf: +47 21 00 64 00

Ελλάδα

Österreich

AstraZeneca A.E.

AstraZeneca Österreich GmbH

Τηλ: +30 210 6871500

Tel: +43 1 711 31 0

España

Polska

AstraZeneca Farmacéutica Spain, S.A.

AstraZeneca Pharma Poland Sp. z o.o.

Tel: +34 91 301 91 00

Tel.: +48 22 245 73 00

France

Portugal

AstraZeneca

AstraZeneca Produtos Farmacêuticos, Lda.

Tél: +33 1 41 29 40 00

Tel: +351 21 434 61 00

Hrvatska

România

AstraZeneca d.o.o.

AstraZeneca Pharma SRL

Tel: +385 1 4628 000

Tel: +40 21 317 60 41

Ireland

Slovenija

AstraZeneca Pharmaceuticals (Ireland) Ltd

AstraZeneca UK Limited

Tel: +353 1609 7100

Tel: +386 1 51 35 600

Ísland

Slovenská republika

Vistor hf.

AstraZeneca AB, o.z.

Sími: +354 535 7000

Tel: +421 2 5737 7777

Italia

Suomi/Finland

AstraZeneca S.p.A.

AstraZeneca Oy

Tel: +39 02 9801 1

Puh/Tel: +358 10 23 010

Κύπρος

Sverige

Αλέκτωρ Φαρµακευτική Λτδ

AstraZeneca AB

Τηλ: +357 22490305

Tel: +46 8 553 26 000

Latvija

United Kingdom

SIA AstraZeneca Latvija

AstraZeneca UK Ltd

Tel: +371 67377100

Tel: +44 1582 836 836

Þessi fylgiseðill var síðast uppfærður

Upplýsingar sem hægt er að nálgast annars staðar

Ítarlegar upplýsingar um lyfið eru birtar á vef Lyfjastofnunar Evrópu http://www.ema.europa.eu.

Upplýsingar á íslensku eru á http://www.serlyfjaskra.is.

Athugasemdir

A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z
  • Hjálp
  • Get it on Google Play
  • Um okkur
  • Info on site by:

  • Presented by RXed.eu

  • 27558

    skráð lyfseðilsskylt lyf