Icelandic
A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z

Orgalutran (ganirelix) – Samantekt á eiginleikum lyfs - H01CC01

Updated on site: 09-Oct-2017

Nafn lyfsOrgalutran
ATC-kóðiH01CC01
Efniganirelix
FramleiðandiMerck Sharp

1.HEITI LYFS

Orgalutran 0,25 mg/0,5 ml stungulyf, lausn.

2.INNIHALDSLÝSING

Hver áfyllt sprauta inniheldur 0,25 mg af ganirelixi í 0,5 ml vatnslausn. Virka efnið ganirelix (INN) er samtengt dekapeptíð sem hefur mikla hamlandi verkun gegn hinu náttúrulega gónadótrópín leysihormóni (GnRH). Skipt hefur verið á amínósýrum í stöðu 1, 2, 3, 6, 8 og 10 hins náttúrulega GnRH dekapeptíðs sem leiðir til myndunar [N-Ac-D-Nal(2)1, D-pClPhe2, D-Pal(3)3, D-hArg(Et2)6, L- hArg(Et2)8, D-Ala10]–GnRH með sameindaþunga 1570,4.

Hjálparefni með þekkta verkun:

Þetta lyf inniheldur minna en 1 mmól af natríum (23 mg) í hverri inndælingu, þ.e.a.s. er nær natríumfrítt.

Sjá lista yfir öll hjálparefni í kafla 6.1.

3.LYFJAFORM

Stungulyf,lausn.

Tær og litlaus vatnslausn.

4.KLÍNÍSKAR UPPLÝSINGAR

4.1Ábendingar

Orgalutran er ætlað til að koma í veg fyrir ótímabæra aukningu gulbúsörvandi hormóns (LH) hjá konum sem gangast undir stýrða yfirörvun eggjastokka (controlled ovarian hyperstimulation (COH)) við tæknifrjóvgun (assisted reproduction techniques (ART)).

Í klínískum rannsóknum var Orgalutran notað ásamt raðbrigða hormóni sem örvar myndun eggbús í eggjakerfi og sæðis í eistum (FSH) manna eða corifollitropin alfa, sem veldur viðvarandi eggbúsörvun.

4.2Skammtar og lyfjagjöf

Orgalutran skal aðeins ávísað af sérfræðingi sem hefur reynslu í meðferð við ófrjósemi.

Skammtar

Orgalutran er notað til að koma í veg fyrir ótímabæra aukningu LH hjá konum sem gangast undir stýrða yfirörvun eggjastokka. Hefja má stýrða yfirörvun eggjastokka með FSH eða corifollitropin alfa- á 2. eða 3. degi tíðablæðinga. Orgalutran (0,25 mg) skal gefið undir húð einu sinni á dag og byrja á 5. eða 6. degi FSH meðferðar eða á 5. eða 6.degi eftir gjöf corifollitropin alfa. Upphafsdagur Orgalutran er háður svörun eggjastokka þ.e. fjölda og stærð eggbúa í vexti og/eða þéttni östradíóls í blóði. Ef þroski eggbúa er ekki nægur má fresta gjöf Orgalutran þrátt fyrir að klínísk reynsla byggist á því að hefja gjöf Orgalutran á 5. eða 6. degi örvunar.

Orgalutran og FSH skal gefa á nokkurn veginn sama tíma. Þó má ekki blanda lyfjunum saman og nota skal sinn hvorn stungustaðinn við gjöf þeirra.

Breytingar á skömmtum FSH skal byggja á fjölda eggbúa og stærð þeirra frekar en á þéttni östradíóls í blóði (sjá kafla 5.1).

Daglegri gjöf Orgalutran skal haldið áfram til þess dags sem nægur fjöldi eggbúa af hæfilegri stærð er til staðar. Hægt er að hvetja lokastig eggbúsþroska með því að gefa kóríóngónadótrópín úr mönnum (hCG).

Tímasetning síðustu inndælingar

Vegna helmingunartíma ganirelix má tíminn milli tveggja Orgalutran inndælinga sem og tíminn milli síðustu gjafar Orgalutran og hCG inndælingar ekki vera lengri en 30 klst. því annars er hætta á ótímabærri aukningu LH. Þegar inndæling Orgalutran er að morgni skal því halda Orgalutran meðferð áfram allan tímann sem gónadótrópín er gefið að meðtöldum þeim degi sem egglosi er komið af stað. Þegar inndæling Orgalutran er síðdegis á síðasta inndæling Orgalutran að vera síðdegis daginn áður en egglosi er komið af stað.

Orgalutran hefur reynst vera öruggt og virkt hjá konum sem gangast undir margar meðferðir.

Ekki hefur verið könnuð þörf fyrir stuðningsmeðferð á seytingarskeiði legslímu (luteal phase support) þá tíðahringi sem Orgalutran er notað. Í klínískum rannsóknum fór það eftir venju í hverju rannsóknarsetri fyrir sig eða eftir meðferðaráætlun hvort stuðningsmeðferð var veitt á seytingarskeiði legslímu.

Sérstakir sjúklingahópar

Skert nýrnastarfsemi

Engin reynsla er af notkun Orgalutran hjá konum með skerta nýrnastarfsemi þar sem þær voru útilokaðar frá klínískum lyfjarannsóknum. Því á ekki að nota Orgalutran hjá sjúklingum með í meðallagi alvarlega eða alvarlega skerta nýrnastarfsemi (sjá kafla 4.3).

Skert lifrarstarfsemi

Engin reynsla er af notkun Orgalutran hjá konum með skerta lifrarstarfsemi þar sem þær voru útilokaðar frá klínískum lyfjarannsóknum. Því á ekki að nota Orgalutran hjá sjúklingum með skerta lifrarstarfsemi (sjá kafla 4.3).

Börn

Notkun Orgalutran á ekki við hjá börnum.

Lyfjagjöf

Orgalutran á að gefa undir húð, helst á læri. Skipta skal um stungustað til að koma í veg fyrir fituvefsrýrnun. Sjúklingur eða maki hans getur gefið Orgalutran að því tilskildu að þau hafi fengið ítarlegar leiðbeiningar og geti ráðfært sig við sérfræðing.

4.3

Frábendingar

-

Ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna sem talin eru upp í kafla 6.1.

-

Ofnæmi fyrir gónadótrópín leysihormóni(GnRH) eða einhverri annarri GnHR-hliðstæðu.

-

Í meðallagi eða alvarlega skert nýrna- eða lifrarstarfsemi.

-

Meðganga eða brjóstagjöf.

4.4

Sérstök varnaðarorð og varúðarreglur við notkun

Ofnæmisviðbrögð

Gæta skal sérstakrar varúðar hjá konum með einkenni um virkt ofnæmi. Við eftirfylgni eftir markaðssetningu hefur verið greint frá tilfellum ofnæmisviðbragða allt frá notkun fyrsta skammts (sjá kafla 4.8). Meðferð með Orgalutran er ekki ráðlögð hjá konum með alvarlegt ofnæmi þar sem klíníska reynslu skortir.

Latexofnæmi

Umbúðir lyfsins innihalda náttúrulegt latex gúmmí sem getur valdið ofnæmisviðbrögðum (sjá kafla 6.5).

Eggjastokkaoförvunarheilkenni (ovarian hyperstimulation syndrome (OHSS))

Eggjastokkaoförvunarheilkenni getur komið fram við örvun eggjastokka eða að henni lokinni. Gera má ráð fyrir eggjastokkaoförvunarheilkenni sem eðlislægri (intrinsic) hættu við örvun með gónadótrópíni. Meðhöndla skal einkenni eggjastokkaoförvunarheilkennis, t.d. með hvíld, innrennsli saltlausna í æð eða kvoðulausna (colloids) og heparíns.

Utanlegsþungun

Þar sem ófrjóar konur sem fá aðstoð við frjóvgun og sérstaklega glasafrjóvgun eru oft með skemmdir í eggjaleiðara, getur tíðni utanlegsfósturs verið hærri. Þess vegna er mikilvægt að eðlileg þungun (innan legs) sé staðfest sem fyrst með ómskoðun.

Meðfæddir gallar

Tíðni meðfæddra galla við tæknifrjóvgun getur verið hærri en við venjulegan getnað. Þetta er talið vera vegna ólíkra sérkenna foreldra (t.d. aldurs móður, sæðisgerðar) og aukinnar hættu á fjölburaþungun. Í klínískum rannsóknum þar sem skoðaðir voru 1000 nýburar var sýnt fram á að tíðni vanskapnaðar hjá börnum mæðra sem fengu stýrða yfirörvun eggjastokka með Orgalutran er sambærileg við það sem sést hjá börnum mæðra sem fengu stýrða yfirörvun eggjastokka með GnRH örvum.

Konur sem vega minna en 50 kg eða meira en 90 kg

Öryggi og verkun Orgalutran hefur hvorki verið staðfest hjá konum léttari en 50 kg né þyngri en 90 kg (sjá einnig kafla 5.1 og 5.2).

4.5Milliverkanir við önnur lyf og aðrar milliverkanir

Ekki hafa verið gerðar neinar rannsóknir á milliverkunum.

Ekki er hægt að útiloka hugsanlegar milliverkanir við algeng lyf, þ.m.t. lyf sem losa histamín.

4.6Frjósemi, meðganga og brjóstagjöf

Meðganga

Ekki liggja fyrir neinar fullnægjandi rannsóknaniðurstöður um notkun ganirelix á meðgöngu.

Gjöf ganirelix við hreiðrun (implantation) hjá dýrum leiddi til endursogs fóstra (litter resorption) (sjá kafla 5.3). Ekki er vitað hvort þessar upplýsingar eiga við um menn.

Brjóstagjöf

Ekki er vitað hvort ganirelix skilst út í brjóstamjólk.

Ekki má nota Orgalutran á meðgöngu og meðan á brjóstagjöf stendur (sjá kafla 4.3).

Frjósemi

Ganirelix er notað til meðferðar á konum sem gangast undir stýrða yfirörvun eggjastokka við tæknifrjóvgun. Ganirelix er notað til að koma í veg fyrir ótímabæra aukningu LH sem gæti annars gerst hjá konum við örvun eggjastokka.

Sjá kafla 4.2 varðandi skammta og lyfjagjöf.

4.7Áhrif á hæfni manna til aksturs og notkunar véla

Engar rannsóknir hafa verið gerðar til að kanna áhrif lyfsins á hæfni til aksturs eða notkunar véla.

4.8Aukaverkanir

Samantekt á öryggisupplýsingum

Taflan hér að neðan greinir frá öllum aukaverkunum hjá konum sem fengu Orgalutran ásamt FSH til að örva eggjastokka í klínískum rannsóknum. Gert er ráð fyrir að aukaverkanir Orgalutran ásamt corifollitropin alfa til að örva eggjastokka séu svipaðar.

Tafla með aukaverkunum

Aukaverkanir eru flokkaðar samkvæmt MedDRA tíðniflokkun og flokkun eftir líffærum: Mjög algengar ( 1/10), algengar ( 1/100 til <1/10), sjaldgæfar ( 1/1.000 til <1/100). Tíðni ofnæmisviðbragða (koma örsjaldan fyrir <1/10.000) er ályktuð út frá lyfjagát eftir markaðssetningu.

Líffæraflokkur

Tíðni

Aukaverkun

Ónæmiskerfi

Koma örsjaldan

Ofnæmisviðbrögð (þar með talin ýmis einkenni

 

fyrir

eins og útbrot, þroti í andliti og mæði)1

 

 

Versnun exems sem fyrir er2

Taugakerfi

Sjaldgæfar

Höfuðverkur

 

 

 

Meltingarfæri

Sjaldgæfar

Ógleði

 

 

 

Almennar aukaverkanir og

Mjög algengar

Staðbundin viðbrögð á stungustað (aðallega roði,

aukaverkanir á íkomustað

 

með eða án bólgu)3

Sjaldgæfar Lasleiki

1Greint hefur verið frá tilvikum strax við fyrsta skammt meðal sjúklinga sem fá Orgalutran.

2Greint hefur verið frá einu tilviki eftir gjöf fyrsta skammts af Orgalutran

3Í klínískum lyfjarannsóknum var tíðni meðalslæmra eða alvarlegra húðáhrifa sem sjúklingar greindu frá og komu fram einni klst. eftir inndælingu að minnsta kosti einu sinni í meðferðarlotu, 12 % hjá sjúklingum sem fengu Orgalutran en 25 % hjá sjúklingum sem fengu GnRH-örva undir húð. Þessi staðbundnu áhrif hverfa venjulega innan fjögurra klst. frá gjöf lyfsins.

Lýsing á völdum aukaverkunum

Aðrar aukaverkanir sem skýrt hefur verið frá tengjast meðferð með stýrðri yfirörvun eggjastokka við tæknifrjóvgun, þ.e. verkir í grindarholi, þensla á kvið, eggjastokkaoförvunarheilkenni, (sjá einnig kafla 4.4) utanlegsfóstur og sjálfkrafa fósturlát.

Tilkynning aukaverkana sem grunur er um að tengist lyfinu

Eftir að lyf hefur fengið markaðsleyfi er mikilvægt að tilkynna aukaverkanir sem grunur er um að tengist því. Þannig er hægt að fylgjast stöðugt með sambandinu milli ávinnings og áhættu af notkun lyfsins. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu samkvæmt fyrirkomulagi sem gildir í hverju landi fyrir sig, sjá Appendix V.

4.9Ofskömmtun

Ofskömmtun hjá mönnum getur leitt til þess að verkun varir lengur.

Engar upplýsingar liggja fyrir um bráðar eiturverkanir Orgalutran hjá mönnum. Í klínískum rannsóknum þar sem Orgalutran var gefið undir húð í allt að 12 mg stökum skömmtum komu ekki fram almennar (systemic) aukaverkanir. Í rannsóknum á bráðum eiturverkunum í rottum og öpum komu ósértæk eituráhrif svo sem lágþrýstingur aðeins fram eftir gjöf stærri skammts en 1 mg/kg af ganirelixi í æð og hægtaktur eftir stærri skammt en 3 mg/kg.

Við ofskömmtun skal meðferð með Orgalutran hætt (tímabundið).

5.LYFJAFRÆÐILEGAR UPPLÝSINGAR

5.1Lyfhrif

Flokkun eftir verkun: Hormónar heiladinguls og undirstúku og hliðstæður, lyf sem hindra myndun gónadótrópínleysandi hormóna-Ganirelixum, ATC flokkur: H01CC01.

Verkunarháttur

Orgalutran er GnRH-hemill sem stillir undirstúku-heiladinguls-kynkirtla öxul með því að keppa um bindingu við GnRH-viðtaka í heiladingli. Við það fæst skjót og öflug afturkræf bæling á gónadótrópíni sem myndast í líkamanum án upphafsörvunar eins og sést hjá GnRH-örvum. Eftir gjöf margra 0,25 mg skammta af Orgalutran hjá kvenkyns sjálfboðaliðum hafði LH minnkað um mest 74% í sermi 4 klst. eftir inndælingu, FSH um 32 % 16 klst. eftir inndælingu og E2 þéttni um 25% 16 klst. eftir inndælingu. Hormónagildi í sermi voru aftur orðin eins og fyrir meðferð innan tveggja daga frá síðustu inndælingu.

Lyfhrif

Hjá sjúklingum sem gengust undir stýrða örvun eggjastokka var miðgildi meðferðarlengdar með Orgalutran 5 dagar. Meðan á Orgalutran meðferð stóð var meðaltíðni LH hækkunar (>10 a.e./l) með samtímis prógesterón hækkun (>1 ng/ml) 0,3 - 1,2 % í samanburði við 0,8 % meðan á meðferð með GnRH-örva stóð. Tilhneiging var til aukinnar tíðni LH og prógesterón hækkunar hjá þyngri konum (>80 kg) en engin áhrif á klíníska svörun komu fram. Þar sem þetta er aðeins byggt á reynslu fárra sjúklinga, sem hafa verið meðhöndlaðir fram til þessa er hins vegar ekki hægt að útiloka einhver áhrif. Við mikla svörun eggjastokka, annaðhvort vegna mikillar útsetningar fyrir gónadótrópínum við upphaf eggbúsfasa eða vegna mikillar næmni eggjastokka, getur ótímabær LH hækkun orðið fyrr en á 6. degi örvunar. Þegar meðferð með Orgalutran er hafin á 5. degi er hægt að koma í veg fyrir þessa ótímabæru LH hækkun án þess að skerða klínískar niðurstöður.

Verkun og öryggi

Í samanburðarrannsóknum með Orgalutran ásamt FSH þar sem langvarandi meðferð (long protocol) GnRH-örva var notuð sem viðmiðun, hafði Orgalutran meðferðin í för með sér hraðari vöxt eggbúa fyrstu daga örvunar en endanlegur hópur vaxandi eggbúa var örlítið minni og framleiddi að meðaltali minna östradíól. Þetta mismunandi mynstur í vexti eggbúa krefst þess að skammtaaðlögun FSH sé byggð á fjölda og stærð vaxandi eggbúa frekar en magni af fríu östradíóli. Svipaðar samanburðarrannsóknir með corifollitropin alfa með annaðhvort GnRH-hemli eða langvarandi meðferð hafa ekki verið gerðar.

5.2Lyfjahvörf

Lyfjahvarfabreytur eftir gjöf margra skammta af Orgalutran undir húð (inndæling einu sinni á dag) voru svipaðar og eftir gjöf eins skammts undir húð. Eftir endurtekna 0,25 mg skammta daglega náðist stöðug þéttni um 0,6 ng/ml innan 2-3 daga.

Lyfjahvarfagreiningar benda til að öfugt hlutfall sé milli líkamsþyngdar og þéttni Orgalutrans í sermi.

Frásog

Eftir gjöf eins 0,25 mg skammts undir húð hækka ganirelixgildi í sermi hratt og hámarksgildi (Cmax) um 15 ng/ml nást innan 1-2 klst. (tmax). Aðgengi Orgalutran eftir gjöf undir húð er um það bil 91%.

Umbrot

Helsta efnið sem er óbundið í plasma er ganirelix. Ganirelix er einnig það efni sem mest finnst af í þvagi. Í hægðum finnast aðeins umbrotsefni. Umbrotsefnin eru lítil peptíð brot sem myndast við vatnsrof af völdum ensíma á tilteknum stöðum á ganirelixi. Umbrotsferill Orgalutran í mönnum var svipaður og sást hjá dýrum.

Brotthvarf

Helmingunartími brotthvarfs (t1/2) er um 13 klst. og úthreinsun er um 2,4 l/klst. Útskilnaður verður aðallega með hægðum (um 75%) og þvagi (um 22%).

5.3Forklínískar upplýsingar

Forklínískar upplýsingar benda ekki til neinnar sérstakrar hættu fyrir menn, á grundvelli hefðbundinna rannsókna á lyfjafræðilegu öryggi, eiturverkunum eftir endurtekna skammta og eiturverkunum á erfðaefni.

Í rannsóknum á æxlun sem gerðar voru með ganirelix í skömmtunum 0,1 til 10 míkróg/kg á dag sem gefnir voru rottum undir húð og skömmtunum 0,1 til 50 míkróg/kg á dag sem gefnir voru kanínum undir húð varð aukið endursog allra fóstra (litter resorption) í hópum sem fengu stærstu skammtana. Engin vanskapandi áhrif komu fram.

6.LYFJAGERÐARFRÆÐILEGAR UPPLÝSINGAR

6.1Hjálparefni

Ediksýra;

Mannitól;

Vatn fyrir stungulyf.

Sýrustig getur hafa verið stillt með natríumhýdroxíði og ediksýru.

6.2Ósamrýmanleiki

Ekki má blanda þessu lyfi saman við önnur lyf, þar sem rannsóknir á samrýmanleika hafa ekki verið gerðar.

6.3Geymsluþol

3 ár.

6.4Sérstakar varúðarreglur við geymslu

Má ekki frjósa.

Geymið í upprunalegum umbúðum til varnar gegn ljósi.

6.5Gerð íláts og innihald

Einnota, áfylltar sprautur (silikonerað gler af gerð I) sem innihalda 0,5 ml af sæfðri vatnslausn sem er tilbúin til notkunar og er þeim lokað með gúmmístimpli sem inniheldur ekki latex. Hver áfyllt sprauta er með áfastri nál í nálarhlíf úr náttúrulegu latex gúmmíi. (Sjá kafla 4.4)

Lyfið er fáanlegt í öskjum með 1 eða 5 áfylltum sprautum.

Ekki er víst að allar pakkningastærðir séu markaðssettar.

6.6Sérstakar varúðarráðstafanir við förgun og önnur meðhöndlun

Skoða á sprautuna fyrir notkun. Einungis á að nota sprautur sem hafa tæra lausn án agna og úr ósködduðum umbúðum.

Farga skal öllum lyfjaleifum og/eða úrgangi í samræmi við gildandi reglur.

7.MARKAÐSLEYFISHAFI

Merck Sharp & Dohme Limited

Hertford Road, Hoddesdon

Hertfordshire EN11 9BU

Bretland

8.MARKAÐSLEYFISNÚMER

EU/1/00/130/001, 1 áfyllt sprauta

EU/1/00/130/002, 5 áfylltar sprautur

9. DAGSETNING FYRSTU ÚTGÁFU MARKAÐSLEYFIS/ENDURNÝJUNAR MARKAÐSLEYFIS

Dagsetning fyrstu útgáfu markaðsleyfis: 17. maí 2000.

Nýjasta dagsetning endurnýjunar markaðsleyfis: 10. maí 2010.

10.DAGSETNING ENDURSKOÐUNAR TEXTANS

Ítarlegar upplýsingar um þetta lyf eru birtar á heimasíðu Lyfjastofnunar Evrópu http://www.ema.europa.eu.

Athugasemdir

A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z
  • Hjálp
  • Get it on Google Play
  • Um okkur
  • Info on site by:

  • Presented by RXed.eu

  • 27558

    skráð lyfseðilsskylt lyf