Icelandic
A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z

Plenadren (hydrocortisone) – Fylgiseðill - H02AB09

Updated on site: 09-Oct-2017

Nafn lyfsPlenadren
ATC-kóðiH02AB09
Efnihydrocortisone
FramleiðandiShire Services BVBA

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir sjúkling

Plenadren 5 mg töflur með breyttan losunarhraða

Plenadren 20 mg töflur með breyttan losunarhraða

Hýdrókortisón

Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að taka lyfið. Í honum eru mikilvægar upplýsingar.

-Geymið fylgiseðilinn. Nauðsynlegt getur verið að lesa hann síðar.

-Leitið til læknisins eða lyfjafræðings ef þörf er á frekari upplýsingum um lyfið.

-Þessu lyfi hefur verið ávísað til persónulegra nota. Ekki má gefa það öðrum. Það getur valdið þeim skaða, jafnvel þótt um sömu sjúkdómseinkenni sé að ræða.

-Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Sjá kafla 4.

Ífylgiseðlinum eru eftirfarandi kaflar:

1.Upplýsingar um Plenadren og við hverju það er notað

2.Áður en byrjað er að nota Plenadren

3.Hvernig nota á Plenadren

4.Hugsanlegar aukaverkanir

5.Hvernig geyma á Plenadren

6.Pakkningar og aðrar upplýsingar

1.Upplýsingar um Plenadren og við hverju það er notað

Plenadren inniheldur virkt efni sem nefnist hýdrókortisón (stundum nefnt kortisól). Hýdrókortisón er sykursteri. Það tilheyrir lyfjaflokki sem er þekktur sem barksterar. Sykursterar myndast náttúrulega í líkamanum og hjálpa til við að viðhalda almennu heilsufari og heilbrigði.

Plenadren er notað til meðferðar á ástandi hjá fullorðnum sem nefnist nýrnahettubilun eða kortisólskortur. Nýrnahettubilun verður þegar nýrnahettan (rétt fyrir ofan nýrun) framleiðir ekki nægilegt hormónakortisól. Sjúklingar sem eru haldnir langtímanýrnahettubilun (langvinnri) þurfa á uppbótarmeðferð að halda til að halda lífi.

Plenadren kemur í stað náttúrulegs kortisóls sem vantar við nýrnahettubilun. Lyfið veitir líkamanum hýdrókortisón yfir daginn. Kortisólmagn í blóði hækkar hratt upp að hámarksgildi um eina klukkustund eftir að tafla er tekin að morgni og lækkar smám saman yfir daginn þar til nánast ekkert kortisól er í blóði seint á kvöldin og um nætur, þegar magnið á að vera lítið.

2. Áður en byrjað er að nota Plenadren

Ekki má nota Plenadren

-ef um er að ræða ofnæmi fyrir hýdrókortisóni eða einhverju öðru innihaldsefni lyfsins (talin upp í kafla 6).

Varnaðarorð og varúðarreglur

Leitið ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en Plenadren er notað.

-ef þú ert með kvilla sem veldur því að þú getur ekki tekið þetta lyf eða ef lyfið frásogast ekki fyllilega úr maga. Slíkt getur gerst í magakvillum sem fela í sér uppköst og/eða niðurgang. Við

slíkar aðstæður skal leita samstundis til læknis til að fá meðferð með hýdrókortisóni með inndælingu og frekari vökvagjöf.

-ef þú ert haldin skammtímaveikindum eða tímabundnum veikindum, svo sem sýkingu eða hita, eða við aðstæður sem fela í sér mikið líkamlegt álag, svo sem við skurðaðgerð: þarf að auka skammtinn af hýdrókortisóni tímabundið. Ráðfærðu þig tafarlaust við lækninn um hvernig bregðast skuli við slíkum aðstæðum. Ef þú ert á leið í skurðaðgerð skaltu láta lækninn/tannlækninn vita fyrir skurðaðgerðina að þú takir þetta lyf.

-ef almennt heilsufar þitt versnar af einhverjum öðrum ástæðum þrátt fyrir að þú takir lyfin samkvæmt fyrirmælum skaltu leita læknishjálpar samstundis.

-ef skjaldkirtill þinn virkar ekki eðlilega skaltu segja lækninum frá því, þar sem nauðsynlegt gæti verið að aðlaga fyrsta skammtinn af Plenadren.

Börn og unglingar

Ekki er mælt með notkun Plenadren hjá börnum og unglingum undir 18 ára aldri vegna þess að það hefur ekki verið rannsakað hjá þessum sjúklingahópi.

Notkun annarra lyfja samhliða Plenadren

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um öll önnur lyf sem eru notuð, hafa nýlega verið notuð eða kynnu að verða notuð. Við langtímameðferð með lyfjum gegn sýkingum (sýklalyfjum) gæti læknirinn þurft að aðlaga skammt Plenadren. Áhrif Plenadren kunna að minnka ef það er notað samhliða meðferð með mifepristón til að ljúka meðgöngu.

Auk þess skaltu láta lækninn eða lyfjafræðinginn vita ef einhver eftirfarandi lyf eru notuð, þar sem aðlaga gæti þurft skammtinn af Plenadren.

Fenytoin, karbamazepín og barbítúröt – notuð í meðferð við flogaveiki

Rífampícín eða rífabútín – notuð í meðferð við berklum

Rítónavír, efavírenz og neivirapín – notuð í meðferð við HIV

Jóhannesarjurt – notuð í meðferð við þunglyndi og öðrum kvillum

Ketókónazól, ítrakónazól, posakónazól og vóríkónazól – notuð í meðferð við sveppasýkingum

Erýtrómýcín, telitrómýcín og klaritrómýcín – notuð í meðferð við bakteríusýkingum

Notkun Plenadren með mat eða drykk

Ekki taka þetta lyf með greipaldinsafa því safinn mun trufla virkni lyfsins.

Meðganga, brjóstagjöf og frjósemi

Við meðgöngu, brjóstagjöf, grun um þungun eða ef þungun er fyrirhuguð skal leita ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en lyfið er notað.

Það er mikilvægt að halda meðferð með Plenadren áfram meðan á meðgöngu stendur. Ólíklegt er að meðferð hjá þunguðum konum með nýrnahettubilun hafi skaðleg áhrif á móður og/eða barn. Láttu lækninn vita ef þú verður þunguð því aðlaga gæti þurft skammtinn af Plenadren.

Hafa má barn á brjósti meðan á meðferð með Plenadren stendur. Hýdrókortisón skilst út í brjóstamjólk. Ólíklegt er að skammtar af hýdrókortisóni í uppbótarmeðferð hafi áhrif á barnið. Engu að síður skal leita ráða hjá lækninum ef barn verður haft á brjósti.

Frjósemi hjá konum með skerta nýrnahettustarfsemi eða skort á kortisóli getur verið skert. Ekkert bendir til þess að Plenadren, í þeim skömmtum sem notaðir eru til uppbótarmeðferðar, hafi áhrif á frjósemi.

Akstur og notkun véla

Lyfið getur haft lítil áhrif á hæfni til aksturs og notkunar véla. Tilkynnt hefur verið um mikla þreytu og sundl (svima) í stuttan tíma. Illa meðhöndluð eða ómeðhöndluð nýrnahettubilun dregur út einbeitingarhæfni og hefur áhrif á hæfni til aksturs eða notkunar véla. Því er mikilvægt að taka lyfið samkvæmt fyrirmælum læknis við akstur eða notkun véla. Ef þetta á við um þig skaltu ekki aka eða nota vélar þar til þú hefur rætt þetta við lækninn.

3.Hvernig nota á Plenadren

Notið lyfið alltaf eins og læknirinn eða lyfjafræðingur hefur sagt til um. Ef ekki er ljóst hvernig nota á lyfið skal leita upplýsinga hjá lækninum eða lyfjafræðingi. Læknirinn ákveður skammtinn sérstaklega fyrir þig.

Þegar þú vaknar skaltu gleypa Plenadren-töflurnar í heilu lagi með glasi af vatni a.m.k. 30 mínútum áður þú borðar morgunverð, helst á milli 6.00 og 8.00 að morgni.

Þú skalt helst vera í uppréttri stöðu.

Ekki brjóta, mylja eða tyggja töflurnar. Töflurnar veita líkamanum hýdrókortisón yfir daginn. Ef þær eru brotnar, muldar eða tuggðar getur það komið í veg fyrir að skammturinn af hýdrókortisóni dreifist yfir daginn, eins og hann á að gera.

Þörf á viðbótarskömmtum af Plenadren

Í skammtímaveikindum eða tímabundnum veikindum, svo sem vegna sýkingar eða hita, eða við líkamlegt álag eins og í skurðaðgerð, þarf meira hýdrókortisón, þar sem líkaminn getur ekki framleitt það viðbótarmagn af kortisól sem þarf við þessar aðstæður. Því þarf að auka skammtinn tímabundið og læknirinn gæti ráðlagt þér að nota aðrar töflur með hýdrókortisóni í stað, eða sem viðbót við Plenadren. Ræddu þetta við lækninn og fylgdu leiðbeiningunum um hvernig bregðast skuli við aðstæðum sem þessum.

Tvöfalda eða þrefalda gæti þurft daglegan skammt af Plenadren í vægari tilfellum, svo sem við vægari sýkingar eða álag. Þá skal taka annan skammtinn af lyfinu sex til tíu klukkustundum eftir morgunskammtinn. Ef ekki nægir að tvöfalda daglegan skammt skal taka þriðja skammtinn sex til tíu klukkustundum eftir annan skammtinn (sex til tíu klukkustundir á milli skammta). Þegar veikindunum lýkur skaltu byrja aftur að taka hefðbundinn viðhaldsskammt af lyfinu.

Eftirfarandi einkenni geta bent til þess að þú þurfir að taka viðbótarskammta af Plenadren eða öðrum hýdrókortisónlyfjum: þreyta, þyngdartap, magaóþægindi, að þig sundli lítillega þegar þú stendur upp úr sitjandi stöðu eða að þig sundlar þegar þú stendur í uppréttri stöðu og dökknun húðar, sérstaklega í húðfellingum og á berskjölduðum svæðum. Hafðu tafarlaust samband við lækninn til að fá ráðleggingar ef einhver þessara einkenna koma fyrir.

Hins vegar þarf að leita læknishjálpar tafarlaust ef vart verður við eitthvað af eftirfarandi: verulegt máttleysi, yfirlið, kviðverki, ógleði, uppköst, bakverki, ringlun, skerta meðvitund eða óráð (verulega ruglun).

Ef notaður er stærri skammtur en mælt er fyrir um

Of stór skammtur af lyfinu í meira en nokkra daga getur verið skaðlegur heilsu þinni. Blóðþrýstingur kann að hækka, þú gætir þyngst og blóðsykur gæti orðið of hár. Stundum þarf að stækka skammtinn til að líkaminn geti brugðist við auknu álagi líkt og hita. Ef oft og reglulega er þörf á viðbótarskömmtum skaltu hafa samband við lækninn þinn til að endurmeta viðhaldsskammtinn.

Ef gleymist að taka Plenadren

Ef gleymist að taka töflur að morgni skal taka þær eins fljótt og mögulegt er. Ekki á að tvöfalda skammt til að bæta upp skammt sem gleymst hefur að taka. Ef þú finnur fyrir einhverjum af þeim einkennum sem talin eru upp í kaflanum „Þörf á viðbótarskömmtum af Plenadren“ skaltu tafarlaust hafa samband við lækninn.

Ef hætt er að nota Plenadren

Það getur reynst lífshættulegt að hætta að taka Plenadren. Því er mikilvægt að halda áfram að taka lyfið samkvæmt fyrirmælum læknisins. Ekki má hætta að taka það án samráðs við lækni.

Leitið til læknisins eða lyfjafræðings ef þörf er á frekari upplýsingum um notkun lyfsins.

4.Hugsanlegar aukaverkanir

Eins og við á um öll lyf getur þetta lyf valdið aukaverkunum en það gerist þó ekki hjá öllum.

Aukaverkanir geta komið fram fyrstu vikurnar eftir að skipt er úr meðferð með öðrum hýdrókortisóntöflum í Plenadren. Þessar aukaverkanir geta verið: magaverkur, ógleði og þreyta. Þær hverfa yfirleitt með tímanum; ef þær gera það ekki skal hafa samband við lækni.

Aukaverkanir lyfsins eru:

Mjög algengar (geta haft áhrif á fleiri en 1 af hverjum 10 einstaklingum)

Sundl

Höfuðverkur

Niðurgangur

Þreyta

Algengar (geta haft áhrif á allt að 1 af hverjum 10 einstaklingum)

Magaverkur/brjóstsviði, ógleði

Verkur í liðum

Útbrot

Kláði

Greint hefur verið frá fleiri aukaverkunum hjá öðrum hýdrókortisónlyfjum. Þessi lyf eru einnig gefin í öðrum tilgangi en fyrir uppbótarmeðferð við nýrnahettubilun, oft í hærri skömmtum. Tíðni þessara hugsanlegu aukaverkana er óþekkt (ekki er hægt að áætla tíðni út frá fyrirliggjandi gögnum). Talaðu við lækninn þinn ef þú finnur fyrir einhverjum þessara aukaverkana:

Hættara við sýkingum

Sykursýki eða vandamál tengd blóðsykursmagni (sést í blóðprufum)

Salt- og vökvasöfnun sem veldur bólgum og hækkar blóðþrýsting (sést við læknisrannsókn) og lítið kalíum í blóði.

Skapsveiflur, svo sem æsingur eða rofin tengsl við raunveruleikann

Svefnerfiðleikar

Aukinn þrýstingur í auga (gláka), ský á augasteini (drer)

Brjóstsviði, versnun magasárs

Veikari bein – getur valdið beinbroti

Húðrákir, marblettir, útbrot sem líkjast bólum, mjög mikill hárvöxtur, hæg græðsla sára

Tilkynning aukaverkana

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Einnig er hægt að tilkynna aukaverkanir beint samkvæmt fyrirkomulagi sem gildir í hverju landi fyrir sig, sjá Appendix V. Með því að tilkynna aukaverkanir er hægt að hjálpa til við að auka upplýsingar um öryggi lyfsins.

5.Hvernig geyma á Plenadren

Geymið þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ekki skal nota lyfið eftir fyrningardagsetningu sem tilgreind er á glasinu og öskjunni á eftir EXP. Fyrningardagsetningin er síðasti dagur mánaðarins sem þar kemur fram.

Engin sérstök fyrirmæli eru um geymsluaðstæður lyfsins.

Ekki má skola lyfjum niður í frárennslislagnir eða fleygja þeim með heimilissorpi. Leitið ráða í apóteki um hvernig heppilegast er að farga lyfjum sem hætt er að nota. Markmiðið er að vernda umhverfið.

6. Pakkningar og aðrar upplýsingar

Plenadren inniheldur

Virka innihaldsefnið er hýdrókortisón.

Plenadren 5 mg: Hver tafla með breyttan losunarhraða inniheldur 5 mg af hýdrókortisóni. Plenadren 20 mg: Hver tafla með breyttan losunarhraða inniheldur 20 mg af hýdrókortisóni.

Önnur innihaldsefni eru hýprómellósa (E464), örkristallaður sellulósi (E460), forhleypt sterkja (maís), vatnsfrír kvoðulausnarkísill (E551) og magnesíumsterat. Húðin er blanda af makrógól (3350), pólývinýlalkóhól, talkúm (E553b) og títanoxíð (E171) 5 mg töflurnar innhalda einnig rautt járnoxíð (E172), gult járnoxíð (E172) og svart járnoxíð (E172).

Lýsing á útliti Plenadren og pakkningastærðir

Töflurnar, sem eru með breyttan losunarhraða, eru kringlóttar (8 mm í þvermál) og kúptar. 5 mg töflur eru bleikar. 20 mg töflur eru hvítar.

Plenadren er í glösum með skrúfloki sem innihalda 50 töflur;

Pakkningastærðir: Hver askja inniheldur eitt glas með 50 töflum með breyttan losunarhraða og fjölpakkningar geta innihaldið 2 glös með 50 töflum (alls 100 töflur með breyttan losunarhraða), 3 glös með 50 töflum (alls 150 töflur með breyttan losunarhraða) eða 6 glös með 50 töflum (alls 300 töflur með breyttan losunarhraða).

Ekki er víst að allar pakkningastærðir séu markaðssettar í þínu landi.

Markaðsleyfishafi og framleiðandi

Shire Services BVBA Rue Montoyer 47

B - 1000 Brussel Belgía

medinfoeuceemea@shire.com

Þessi fylgiseðill var síðast uppfærður

Upplýsingar sem hægt er að nálgast annars staðar

Ítarlegar upplýsingar um lyfið eru birtar á vef Lyfjastofnunar Evrópu: http://www.ema.europa.eu. Þar eru líka tenglar á aðra vefi um sjaldgæfa sjúkdóma og lyf við þeim.

Upplýsingar á íslensku eru á http://www.serlyfjaskra.is.

Athugasemdir

A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z
  • Hjálp
  • Get it on Google Play
  • Um okkur
  • Info on site by:

  • Presented by RXed.eu

  • 27558

    skráð lyfseðilsskylt lyf