Icelandic
A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z

Thalidomide Celgene (Thalidomide Pharmion) (thalidomide) – Fylgiseðill - L04AX02

Updated on site: 10-Oct-2017

Nafn lyfsThalidomide Celgene (Thalidomide Pharmion)
ATC-kóðiL04AX02
Efnithalidomide
FramleiðandiCelgene Europe Limited  

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins

Thalidomide Celgene 50 mg hörð hylki

Talidomíð

AÐVÖRUN

Talidomíð veldur fæðingargöllum og fósturláti. Ekki taka talidomíð ef þú ert þunguð eða gætir orðið þunguð. Þú verður að fylgja leiðbeiningum læknisins um getnaðarvarnir.

Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum eru mikilvægar upplýsingar.

Geymið fylgiseðilinn. Nauðsynlegt getur verið að lesa hann síðar.

Leitið til læknisins, lyfjafræðings eða hjúkrunarfræðings ef þörf er á frekari upplýsingum.

Þessu lyfi hefur verið ávísað til persónulegra nota. Ekki má gefa það öðrum. Það getur valdið þeim skaða, jafnvel þótt um sömu sjúkdómseinkenni sé að ræða.

Látið lækninn, lyfjafræðing eða hjúkrunarfræðing vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Sjá kafla 4.

Í fylgiseðlinum eru eftirfarandi kaflar

1.Upplýsingar um Thalidomide Celgene og við hverju það er notað

2.Áður en byrjað er að nota Thalidomide Celgene

3.Hvernig nota á Thalidomide Celgene

4.Hugsanlegar aukaverkanir

5.Hvernig geyma á Thalidomide Celgene

6.Pakkningar og aðrar upplýsingar

1.Upplýsingar um Thalidomide Celgene og við hverju það er notað

Upplýsingar um Thalidomide Celgene

Thalidomide Celgene inniheldur virkt efni sem nefnist talidomíð. Það tilheyrir flokki lyfja sem hafa áhrif á það hvernig ónæmiskerfið starfar.

Við hverju Thalidomide Celgene er notað

Thalidomide Celgene er notað samhliða tveimur öðrum lyfjum sem nefnast „melfalan“ og „prednisón“ til meðferðar við ákveðinni gerð krabbameins sem nefnist mergæxli, hjá fullorðnum 65 ára og eldri. Það er notað hjá einstaklingum sem hafa nýlega greinst með mergæxli og hafa ekki fengið annað lyf við mergæxli, eða sem geta ekki gengist undir háskammtameðferð með krabbameinslyfjum, en slík meðferð getur verið mjög mikið álag á líkamann.

Hvað er mergæxli?

Mergæxli er ákveðin gerð krabbameins sem hefur áhrif á ákveðna tegund af hvítum blóðkornum sem nefnst plasmafrumur. Þessar frumur safnast saman í beinmergnum og fjölga sér óstjórnlega. Það getur valdið skemmdum á beinum og nýrum. Mergæxli er yfirleitt ólæknanlegt. Þó er hægt að draga verulega úr einkennum og þau geta jafnvel horfið tímabundið. Slíkt kallast „sjúkdómshlé“.

Verkun Thalidomide Celgene

Thalidomide Celgene verkar með því að hjálpa ónæmiskerfi líkamans og ráðast beint á krabbameinið. Það verkar á ýmsa vegu:

með því að stöðva þroska krabbameinsfrumnanna

með því að stöðva vöxt æða í krabbameinsæxlum

með því að örva hluta ónæmiskerfisins til að ráðast á krabbameinsfrumurnar.

2.Áður en byrjað er að nota Thalidomide Celgene

Þú munt hafa fengið ákveðin fyrirmæli hjá lækninum, einkum um áhrif talidomíðs á ófædd börn (sem lýst er í Thalidomide Celgene áætluninni til að koma í veg fyrir þungun).

Þú munt hafa fengið sjúklingaspjald eða önnur viðeigandi gögn frá lækninum þínum. Lestu það vandlega og fylgdu leiðbeiningunum sem þar koma fram.

Ef þú skilur þessar upplýsingar ekki fullkomlega skaltu biðja lækninn um að útskýra þær aftur fyrir þér

áður en þú tekur talidomíð. Sjá einnig frekari upplýsingar í köflunum „Varnaðarorð og varúðarreglur“ og „Meðganga og brjóstagjöf “.

Ekki má taka Thalidomide Celgene

ef þú ert barnshafandi eða telur að þú getir verið barnshafandi eða hefur í hyggju að verða barnshafandi, þar sem Thalidomide Celgene veldur fæðingargöllum og fósturláti.

ef þú getur orðið þunguð, nema þú fylgir öllum nauðsynlegum ráðstöfunum til að koma í veg fyrir að þú verðir þunguð (sjá kafla 2 „Varnaðarorð og varúðarreglur“ og „Meðganga og brjóstagjöf“).

ef þú getur orðið þunguð mun læknirinn skrá niður í hvert sinn sem hann ávísar lyfinu að nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar og veita þér staðfestingu á því.

ef um er að ræða ofnæmi fyrir talidomíði eða einhverju öðru innihaldsefni lyfsins sem talin eru upp í kafla 6 „Pakkningar og aðrar upplýsingar“.

Þú mátt ekki taka Thalidomide Celgene ef eitthvað af ofangreindu á við um þig. Ef þú ert ekki viss skaltu tala við lækninn eða lyfjafræðing áður en þú tekur Thalidomide Celgene.

Varnaðarorð og varúðarreglur

Leitið ráða hjá lækninum, lyfjafræðingi eða hjúkrunarfræðingnum áður en þetta lyf er notað við eftirfarandi aðstæður:

Fyrir konur sem taka Thalidomide Celgene

Áður en meðferð hefst, skaltu spyrja lækninn hvort þú getir orðið þunguð, jafnvel þó að þú teljir það ólíklegt.

Ef þú getur orðið þunguð:

Mun læknirinn sjá til þess að þú farir í þungunarpróf o fyrir meðferð

o á 4 vikna fresti meðan á meðferð stendur o 4 vikum eftir að meðferð er hætt

Þú verður að nota eina skilvirka getnaðarvörn:

o í 4 vikur áður en meðferð hefst o á meðan á meðferð stendur

o þar til 4 vikum eftir að meðferð er hætt Læknirinn mun segja þér hvaða getnaðarvarnir þú átt að nota.

Ef þú getur orðið þunguð, mun læknirinn skrá í hvert sinn sem lyfinu er ávísað að nauðsynlegar ráðstafanir, sem lýst er hér að ofan, hafi verið gerðar og skrá það á sjúklingaspjaldið þitt eða í önnur viðeigandi skjöl.

Fyrir karla sem taka Thalidomide Celgene

Talidomíð skilst út í sæði. Því skal ekki hafa kynmök án getnaðarvarna.

Koma verður í veg fyrir þungun og að fóstur komist í snertingu við lyfið á meðgöngu. Því skal ávallt nota smokka:

o meðan á meðferð stendur

o í 1 viku eftir að meðferð er hætt

Þú mátt ekki gefa sæði:

o meðan á meðferð stendur

o í 1 viku eftir að meðferð er hætt

Fyrir alla sjúklinga

Talaðu við lækninn áður en þú tekur Thalidomide Celgene ef:

Þú hefur fengið hjartaáfall, hefur einhvern tíma fengið blóðtappa, eða ef þú reykir, ert með háan blóðþrýsting eða há kólesterólgildi. Meðan á meðferð með Thalidomide Celgene stendur er meiri hætta á að blóðtappi myndist í bláæðum og slagæðum.

Þú hefur haft eða ert með hægan hjartslátt (þetta kann að vera einkenni hægatakts).

Þú hefur haft eða ert með taugakvilla, s.s. náladofa, óeðlilega samhæfingu eða verki í höndum eða fótum.

Þú hefur fundið fyrir syfju.

Þú hefur mikinn æxlisvöxt í öllum líkamanum, að beinmergi meðtöldum. Það gæti leitt til ástands þar sem æxlin brotna niður og valda óvenjulega miklum breytingum á efnasamsetningu blóðsins, en það getur leitt til nýrnabilunar (þetta ástand nefnist æxlislýsuheilkenni).

Þú hefur fengið hita, kuldahroll og verulegan skjálfta og hugsanlega einnig lágan blóðþrýsting og ringlun (þetta geta verið einkenni alvarlegra sýkinga).

Þú hefur fengið ofnæmisviðbrögð meðan þú hefur verið á meðferð með talidomíði svo sem útbrot, kláða, þrota, sundl eða öndunarerfiðleika.

Þú skilur ekki ráðleggingarnar sem læknirinn hefur gefið þér um getnaðarvarnir eða ef þú telur þig ófæra/n um að fara eftir ráðleggingunum.

Þú ert með háan blóðþrýsting frá hjartanu til lungnanna.

Þú ert með eða hefur einhvern tíma fengið veirusýkingu, sérstaklega hlaupabólu, ristil,

lifrarbólgu B eða HIV veirusýkingu. Ef þú ert ekki viss, talaðu þá við lækninn. Meðferð með talidomíði getur valdið því að veiran verði virk á ný hjá sjúklingum sem hafa fengið veiruna, sem leiðir til þess að sýkingin tekur sig upp að nýju. Læknirinn á að athuga hvort þú hefur einhvern tíma fengið lifrarbólgu B veirusýkingu.

Þú mátt ekki gefa blóð meðan á Thalidomide Celgene meðferð stendur og í eina viku eftir að meðferð er hætt.

Ef þú ert ekki viss um hvort eitthvað af því sem nefnt er hér að ofan eigi við um þig, skaltu ráðfæra þig við lækninn áður en þú tekur Thalidomide Celgene.

Börn og unglingar

Ekki er ráðlagt að nota Thalidomide Celgene hjá börnum og unglingum undir 18 ára aldri.

Notkun annarra lyfja samhliða Thalidomide Celgene

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um öll önnur lyf sem eru notuð, hafa nýlega verið notuð eða kynnu að verða notuð. Þetta á einnig við um þau lyf sem fengin eru án lyfseðils og jurtalyf.

Láttu lækninn vita ef þú tekur einhver lyf sem:

valda syfju, þar sem talidomíð getur aukið áhrif þeirra. Þetta á einnig við um róandi lyf (svo sem kvíðastillandi lyf, svæfingalyf, geðrofslyf, H1 andhistamín, ópíumafleiður og barbítúröt).

hægja á hjartslætti (valda hægslætti, svo sem andkólínesterasar og beta-blokkar).

notuð eru við hjartasjúkdómum og fylgikvillum þeirra (svo sem dígoxín), eða til blóðþynningar (svo sem warfarín).

eru önnur krabbameinslyf.

eru til getnaðarvarnar.

Notkun Thalidomide Celgene með mat, drykk eða áfengi

Thalidomide Celgene má taka með eða án matar (sjá kafla 3, „Hvernig á að taka Thalidomide Celgene“).

Ekki má drekka áfengi á meðan Thalidomide Celgene er tekið. Það er vegna þess að áfengi veldur syfju og Thalidomide Celgene getur gert þig syfjaðri.

Meðganga og brjóstagjöf

Við meðgöngu, brjóstagjöf, grun um þungun eða ef þungun er fyrirhuguð skal leita ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en lyfið er notað.

Meðganga

Talidomíð veldur alvarlegum fæðingargöllum eða fósturláti.

Aðeins eitt hylki sem barnshafandi kona tekur inn getur haft þær afleiðingar að barnið fæðist með alvarlega fæðingargalla.

Þessir gallar geta verið styttri handleggir eða fótleggir, vanskapaðar hendur eða fætur, augna- eða

eyrnagallar, og vandamál tengd innri líffærum.

Þú mátt ekki taka Thalidomide Celgene ef þú ert barnshafandi. Þú mátt heldur ekki verða barnshafandi á meðan þú ert að taka Thalidomide Celgene.

Þú verður að nota eina skilvirka getnaðarvörn ef þú ert kona sem getur orðið þunguð (sjá kafla 2,

„Áður en byrjað er að nota Thalidomide Celgene“).

Þú verður að hætta meðferð og láta lækninn strax vita ef:

Þú missir úr, eða telur að þú hafir misst úr blæðingar, eða þú hefur óvenjulegar blæðingar eða þig grunar að þú sért þunguð.

Þú hefur kynmök við aðila af gagnstæðu kyni án þess að nota skilvirka getnaðarvörn.

Ef þú verður þunguð á meðan á talidomíð meðferð stendur, verður þú strax að hætta meðferðinni og láta lækninn vita.

Fyrir karla sem taka Thalidomide Celgene og eiga kvenkyns maka sem getur orðið þunguð, er vísað í kafla 2 „Áður en byrjað er að nota Thalidomide Celgene“. Ef maki þinn verður þungaður á meðan þú tekur talidomíð, skaltu tafarlaust láta lækninn vita.

Brjóstagjöf

Ekki gefa barni brjóst á meðan Thalidomide Celgene er tekið, þar sem ekki er vitað hvort talidomíð berst í brjóstamjólk hjá mönnum.

Akstur og notkun véla

Ekki aka eða nota nein tæki eða vélar ef þú finnur fyrir aukaverkunum eins og sundli, þreytu, svefnhöfga eða þokusýn.

3.Hvernig nota á Thalidomide Celgene

Notið Thalidomide Celgene alltaf nákvæmlega eins og læknirinn eða lyfjafræðingur hefur sagt til um. Ef þú ert ekki viss um hvernig á að nota lyfið, leitaðu þá upplýsinga hjá lækninum eða lyfjafræðingi.

Hve mikið á að taka

Ráðlagður skammtur er 200 mg (4 x 50 mg hylki) á dag fyrir fullorðna 75 ára og yngri eða 100 mg (2 x 50 mg hylki) á dag fyrir fullorðna eldri en 75 ára. Læknirinn mun ákveða skammtastærðina af Thalidomide Celgene fyrir þig, fylgjast með framvindu og breyta skammtinum ef þörf krefur.

Læknirinn mun segja þér hvernig á að taka Thalidomide Celgene og hversu lengi þú þarft að taka það (sjá kafla 2 „Áður en byrjað er að nota Thalidomide Celgene“).

Thalidomide Celgene er tekið daglega í meðferðarlotum þar sem hver lota varir í 6 vikur, ásamt melfalani og prednisóni sem tekin eru á 1. til 4. degi hverrar lotu.

Hvernig á að taka þetta lyf

Ekki brjóta, opna eða tyggja hylkin. Ef duft úr brotnu Thalidomide Celgene hylki kemst í snertingu við húð skal þvo húðina vandlega án tafar með vatni og sápu.

Þetta lyf er tekið inn um munn.

Gleyptu hylkið heilt með fullu glasi af vatni.

Ekki merja eða tyggja.

Taktu hylkin í einum skammti fyrir háttatíma. Með því kemurðu í veg fyrir að finna fyrir syfju á öðrum tímum.

Þegar hylkið er tekið úr þynnupakkningunni á eingöngu að þrýsta á annan enda hylkisins þegar því er þrýst í gegnum álþynnuna. Ekki skal þrýsta á miðju hylkisins því þá getur hylkið brotnað.

Ef tekinn er stærri skammtur en mælt er fyrir um

Ef þú tekur meira Thalidomide Celgene en þú áttir að gera skaltu tala strax við lækni eða fara tafarlaust á sjúkrahús. Ef mögulegt er skaltu hafa lyfjapakkann og þennan fylgiseðil með þér.

Ef gleymist að taka Thalidomide Celgene

Ef þú gleymir að taka Thalidomide Celgene á réttum tíma og

minna en 12 klst eru liðnar skaltu taka hylkin strax.

meira en 12 klst eru liðnar skaltu ekki taka hylkin. Taktu næstu hylki á réttum tíma næsta dag.

Leitið til læknisins, lyfjafræðings eða hjúkrunarfræðingsins ef þörf er á frekari upplýsingum um notkun lyfsins.

4.Hugsanlegar aukaverkanir

Eins og við á um öll lyf getur þetta lyf valdið aukaverkunum en það gerist þó ekki hjá öllum.

Þetta lyf getur valdið eftirfarandi aukaverkunum:

Hættu að taka Thalidomide Celgene og farðu tafarlaust til læknis ef þú tekur eftir eftirfarandi alvarlegum aukaverkunum – þú gætir þurft á bráðri læknismeðferð að halda:

Alvarlegum viðbrögðum í húð, þar með talin útbrot, sem er algeng aukaverkun og blöðrur á húð og slímhúð (Stevens-Johnson heilkenni og eitrunardreplos húðþekju, sem eru sjaldgæfar aukaverkanir). Þú gætir fengið háan hita samhliða þessum aukaverkunum.

Láttu lækninn vita tafarlaust ef þú tekur eftir einhverjum af eftirfarandi alvarlegum aukaverkunum:

Doða, náladofa, samhæfingarvandamálum eða sársauka í höndum og fótum.

Það getur verið vegna taugaskemmda (sem kallast „kvillar í úttaugakerfi“), sem er mjög algeng aukaverkun. Þetta getur orðið mjög alvarlegt, sársaukafullt og valdið fötlun. Ef þú finnur fyrir slíkum einkennum skaltu ræða tafarlaust við lækninn sem getur dregið úr skammtinum eða stöðvað meðferðina. Þessi aukaverkun kemur yfirleitt fram eftir að lyfið hefur verið tekið í nokkra mánuði, en getur gerst fyrr. Það getur einnig gerst í nokkurn tíma eftir að meðferð er hætt. Verið getur að það hverfi ekki eða hverfi hægt.

Skyndilegum sársauka í brjóstholi eða öndunarerfiðleikum.

Þetta gæti verið afleiðing blóðsega í slagæðum sem liggja til lungna, sem er algeng aukaverkun. Það getur gerst á meðan á meðferð stendur, eða eftir að meðferð hefur verið hætt.

Sársauka eða bólgu í fótleggjum, einkum í neðri hluta fótleggja eða kálfum.

Það gæti verið afleiðing blóðsega í bláæðum í fótleggjunum, sem er algeng aukaverkun. Það getur gerst á meðan á meðferð stendur, eða eftir að meðferð hefur verið hætt.

Verk fyrir brjósti með leiðslu út í handleggi, háls, kjálka, bak eða maga, svita og mæði, ógleði eða uppköstum.

Þetta geta verið einkenni um hjartaáfall/hjartadrep (sem gæti verið afleiðing blóðtappa í slagæðum í hjarta).

Erfiðleikum við að sjá eða tala, sem vara ekki lengi.

Þetta geta verið einkenni um heilaslag (sem gæti verið afleiðing blóðtappa í slagæð í heila).

Hita, hrolli, særindum í háls, hósta, sárum í munni eða öðrum einkennum sýkingar.

Blæðingum eða marblettum án áverka.

Aðrar aukaverkanir eru meðal annars:

Mikilvægt er að hafa í huga að lítill hluti sjúklinga með mergæxli getur fengið aðrar gerðir krabbameina, sérstaklega illkynja blóðsjúkdóma, og mögulegt er að sú hætta sé aukin við meðferð með Thalidomide Celgene; því á læknirinn að meta vandlega ávinning og áhættu af meðferð með Thalidomide Celgene þegar hann ávísar lyfinu fyrir þig.

Mjög algengar (geta komið fyrir hjá fleiri en 1 af hverjum 10 einstaklingum)

Hægðatregða.

Sundl.

Svefnhöfgi, þreytutilfinning.

Skjálfti.

Bólga í höndum og fótum.

Fækkun blóðkorna. Þetta getur þýtt að þú sért líklegri til að fá sýkingar. Læknirinn þinn kann að fylgjast með blóðkornum þínum meðan á meðferð með Thalidomide Celgene stendur.

Algengar (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 10 einstaklingum)

Meltingartruflanir, ógleði, uppköst, munnþurrkur.

Útbrot, þurr húð.

Máttleysi, óstöðugleiki, orkuleysi eða styrkleysi, lágur blóðþrýstingur.

Sótthiti, almenn vanlíðan.

Svimatilfinning í höfði, sem veldur því að erfitt er að standa upp og hreyfa sig á eðlilegan hátt.

Þokusýn.

Sýking í brjóstholi (lungnabólga), lungnasjúkdómur.

Hægsláttur, hjartabilun.

Þunglyndi, rugl, skapsveiflur, kvíði.

Sjaldgæfar (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 100 einstaklingum)

Bólgur í lungnapípum (berkjubólga).

Bólgur í frumum í magavegg.

Gat í hluta af ristlinum sem getur valdið sýkingu.

Tilkynnt hefur verið um fleiri aukaverkanir eftir markaðssetningu lyfsins. Þær eru meðal annars:

Vanvirkni skjaldkirtils (skjaldvakabrestur).

Garnastífla.

Kynferðisleg vangeta, t.d. getuleysi.

Fækkun hvítra blóðkorna (daufkyrningafæð) ásamt hita og sýkingu.

Alvarleg blóðsýking (sýklasótt) með hita, hrolli og miklum skjálfta, og hugsanlega lágum blóðþrýstingi og rugli (sýklasóttarlosti).

Fækkun rauðra og hvítra blóðkorna og blóðflagna á sama tíma (blóðkornafæð).

Æxlislýsuheilkenni – efnaskipta-fylgikvillar sem geta komið fram meðan á meðferð gegn krabbameini stendur og stundum jafnvel án meðferðar. Þessir fylgikvillar eru vegna niðurbrots deyjandi krabbameinsfrumna og geta m.a. verið: Breytingar á efnasamsetningu blóðs, mikið magn kalíums, fosfórs og þvagsýru og lítið magn kalsíums, en þetta getur leitt til breytinga á nýrnastarfsemi og hjartslætti, krampa og stundum dauðsfalla.

Ofnæmisviðbrögð svo sem staðbundin eða útbreidd útbrot með kláða og ofsabjúgur (tegundir ofnæmisviðbragða sem geta lýst sér sem ofsakláði, útbrot, þroti í augum, munni eða andliti, öndunarerfiðleikar eða kláði).

Heyrnarskerðing eða heyrnarleysi.

Krampar.

Nýrnasjúkdómur (nýrnabilun).

Lifrarskemmdir (truflanir á lifrarstarfsemi), þ.m.t. óeðlilegar niðurstöður lifrarprófa.

Blæðing í maga eða görnum (blæðing í meltingarvegi).

Hjartsláttaróregla (gáttasleglarof eða gáttatif), svimatilfinning eða yfirlið.

Versnun á einkennum Parkinsons sjúkdóms (svo sem skjálfta, þunglyndis eða ringlunar).

Verkur í efri hluta kviðar og/eða baki, sem getur verið alvarlegur og er til staðar í nokkra daga, hugsanlega ásamt ógleði, uppköstum, hita og hröðum hjartslætti – þessi einkenni kunna að vera vegna bólgu í brisi (brisbólgu).

Hækkun blóðþrýstings í æðum sem veita blóði til lungnanna, en það getur valdið mæði, þreytu, sundli, brjóstverk, hröðum hjartslætti eða þrota á fótleggjum eða ökklum (lungnaháþrýstingur).

Veirusýkingar, þ.m.t. herpes zoster sýking (sem einnig er þekkt sem „ristill“, veirusýking sem veldur sársaukafullum húðútbrotum ásamt blöðrum) og endurtekin lifrarbólgu B sýking (sem getur valdið gulnun húðar og augna, dökkbrúnum lit á þvagi, verk í hægri hluta kviðar, hita og ógleði eða uppköstum).

Tilkynning aukaverkana

Látið lækninn, lyfjafræðing eða hjúkrunarfræðinginn vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Einnig er hægt að tilkynna aukaverkanir beint samkvæmt fyrirkomulagi sem gildir í hverju landi fyrir sig, sjá Appendix V. Með því að tilkynna aukaverkanir er hægt að hjálpa til við að auka upplýsingar um öryggi lyfsins.

5.Hvernig geyma á Thalidomide Celgene

Geymið þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ekki skal nota lyfið eftir fyrningardagsetningu sem tilgreind er á veskisspjaldinu og þynnunni á eftir EXP. Fyrningardagsetning er síðasti dagur mánaðarins sem þar kemur fram.

Ekki skal nota lyfið ef um sýnilegar skemmdir er að ræða eða innsigli er rofið.

Engin sérstök fyrirmæli eru um geymsluaðstæður lyfsins.

Við lok meðferðar skal skila öllum ónotuðum hylkjum til apóteksins eða læknisins. Þetta kemur í veg fyrir misnotkun.

6. Pakkningar og aðrar upplýsingar

Thalidomide Celgene inniheldur

Virka innihaldsefnið er talidomíð. Í hverju hylki eru 50 mg af talidomíði.

Önnur innihaldsefni eru forhleypt sterkja og magnesíumsterat. Í ytra borði hylkisins eru gelatín og títandíoxíð (E171). Í prentblekinu eru gljálakk, svart járnoxíð (E172) og própýlenglýkól

Lýsing á útliti Thalidomide Celgene og pakkningastærðir

Thalidomide Celgene eru hvít hörð hylki merkt „Thalidomide Celgene 50 mg“. Hylkin eru afgreidd í veskisspjöldum sem hvert um sig inniheldur 28 hylki (2 þynnupakkningar með 14 hylkjum hvor).

Markaðsleyfishafi og framleiðandi

Celgene Europe Limited 1 Longwalk Road Stockley Park

Uxbridge

UB11 1DB Bretland

EÐA

Markaðsleyfishafi

Celgene Europe Limited

1 Longwalk Road

Stockley Park

Uxbridge

UB11 1DB

Bretland

Framleiðandi

Penn Pharmaceutical Services Limited

Tafarnaubach Industrial Estate

Tredegar

Gwent

NP22 3AA

Bretland

Þessi fylgiseðill var síðast uppfærður í

Upplýsingar sem hægt er að nálgast annars staðar

Vinsamlegast hafið samband við markaðsleyfishafann til að fá þessar upplýsingar á öðru sniði.

Ítarlegar upplýsingar um lyfið eru birtar á vef Lyfjastofnunar Evrópu: http://www.ema.europa.eu. og á vef Lyfjastofnunar (www.lyfjastofnun.is). Þar eru líka tenglar á aðra vefi um sjaldgæfa sjúkdóma og lyf við þeim.

Athugasemdir

A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z
  • Hjálp
  • Get it on Google Play
  • Um okkur
  • Info on site by:

  • Presented by RXed.eu

  • 27558

    skráð lyfseðilsskylt lyf