Icelandic
A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z

Tobi Podhaler (tobramycin) – Samantekt á eiginleikum lyfs - J01GB01

Updated on site: 10-Oct-2017

Nafn lyfsTobi Podhaler
ATC-kóðiJ01GB01
Efnitobramycin
FramleiðandiNovartis Europharm Ltd  

1.HEITI LYFS

TOBI Podhaler 28 mg innöndunarduft, hörð hylki

2.INNIHALDSLÝSING

Hvert hart hylki inniheldur 28 mg af tobramycini.

Sjá lista yfir öll hjálparefni í kafla 6.1.

3.LYFJAFORM

Innöndunarduft, hart hylki

Glær hylki sem innihalda hvítt eða nánast hvítt duft, með „NVR AVCI“ prentuðu með bláu á annan helming hylkisins og Novartis vörumerkinu prentuðu með bláu bleki á hinn hluta hylkisins.

4.KLÍNÍSKAR UPPLÝSINGAR

4.1Ábendingar

TOBI Podhaler er ætlað til bælandi meðferðar við langvinnri lungnasýkingu af völdum Pseudomonas aeruginosa, hjá fullorðnum og börnum 6 ára og eldri með slímseigjusjúkdóm (cystic fibrosis).

Sjá upplýsingar um mismunandi aldurshópa í köflum 4.4 og 5.1.

Hafa skal opinberar leiðbeiningar um viðeigandi notkun sýklalyfja í huga.

4.2Skammtar og lyfjagjöf

Skammtar

Skammturinn af TOBI Podhaler er sá sami fyrir alla sjúklinga á því aldursbili sem lyfið er samþykkt fyrir, án tillits til aldurs og þyngdar. Ráðlagður skammtur er 112 mg af tobramycini (4 x 28 mg hylki), tvisvar á sólarhring í 28 daga. TOBI Podhaler er tekið í lotum, til skiptis í 28 daga á meðferð og í kjölfarið 28 daga án meðferðar. Skammtana tvo (sem eru 4 hylki hvor) skal nota (til innöndunar) með því sem næst 12 klst. millibili og ekki með minna en 6 klst. millibili.

Skammtar sem gleymast

Ef skammtur gleymist og að minnsta kosti 6 klst. eru þangað til að nota á næsta skammt, á sjúklingurinn að nota skammtinn eins fljótt og mögulegt er. Að öðrum kosti skal sjúklingurinn bíða fram að næsta skammti og ekki nota fleiri hylki til þess að bæta upp skammtinn sem gleymdist.

Lengd meðferðar

Meðferð með TOBI Podhaler skal halda áfram á lotubundinn hátt svo lengi sem læknirinn telur að sjúklingurinn hafi klínískan ávinning af meðferð með TOBI Podhaler. Ef klínísk versnun verður á lungnastarfsemi, skal íhuga viðbótarmeðferð, eða aðra meðferð gegn pseudomonas bakteríum. Sjá einnig upplýsingar um klínískan ávinning og þol í köflum 4.4, 4.8 og 5.1.

Sérstakir sjúklingahópar

Aldraðir sjúklingar (≥65 ára)

Fyrirliggjandi upplýsingar hjá þessum sjúklingahópi eru ekki nægilegar til að hægt sé að mæla með eða gegn aðlögun skammta.

Skert nýrnastarfsemi

Tobramycin skilst aðallega út í þvagi á óbreyttu formi og má búast við að nýrnastarfsemi hafi áhrif á útsetningu fyrir tobramycini. Sjúklingar með 2 mg/dl eða meira af kreatíníni í sermi og 40 mg/dl eða meira af köfnunarefni úr þvagefni í blóði (BUN) hafa ekki verið teknir inn í klínískar rannsóknir og þar sem engar upplýsingar liggja fyrir um þennan sjúklingahóp er hvorki hægt sé að mæla með né gegn aðlögun skammta af TOBI Podhaler. Gæta skal varúðar þegar TOBI Podhaler er ávísað fyrir sjúklinga með skerta nýrnastarfsemi eða mögulega skerta nýrnastarfsemi.

Sjá einnig upplýsingar um eiturverkanir á nýru í kafla 4.4.

Skert lifrarstarfsemi

Engar rannsóknir hafa verið gerðar hjá sjúklingum með skerta lifrarstarfsemi. Þar sem tobramycin umbrotnar ekki, er ekki búist við áhrifum á útsetningu fyrir tobramycini af völdum skertrar lifrarstarfsemi.

Sjúklingar sem gengist hafa undir líffæraígræðslu

Fullnægjandi upplýsingar um notkun TOBI Podhaler eftir líffæraígræðslu liggja ekki fyrir. Ekki er hægt að mæla með eða gegn skammtaaðlögun hjá sjúklingum eftir líffæraígræðslu.

Börn

Ekki hefur verið sýnt fram á öryggi og verkun TOBI Podhaler hjá börnum yngri en 6 ára. Engar upplýsingar liggja fyrir.

Lyfjagjöf

Til innöndunar.

TOBI Podhaler er gefið með innöndun með því að nota Podhaler innöndunartækið (sjá nákvæmar notkunarleiðbeiningar í kafla 6.6). Lyfið má ekki gefa með neinum öðrum hætti eða með neinu öðru innöndunartæki.

Umönnunaraðilar eiga að veita börnum aðstoð þegar þau hefja meðferð með TOBI Podhaler, sérstaklega þeim sem eru 10 ára og yngri, og leiðbeina þeim þar til þau geta notað Podhaler innöndunartækið á réttan hátt hjálparlaust.

TOBI Podhaler hylki má ekki gleypa. Anda skal innihaldi hvers TOBI Podhaler hylkis inn með tveimur innöndunum og með því að halda niðri í sér andanum og ganga skal úr skugga um að hylkið sé tómt.

Þegar sjúklingar fá fleiri mismunandi innöndunarlyf og lungnasjúkraþjálfun, er mælt með því að TOBI Podhaler sé notað síðast.

4.3Frábendingar

Ofnæmi fyrir virka efninu og einhverjum amínóglýkósíðum eða einhverju hjálparefnanna sem talin eru upp í kafla 6.1.

4.4Sérstök varnaðarorð og varúðarreglur við notkun

Eiturverkanir á heyrnartaug

Greint hefur verið frá eiturverkunum á heyrnartaug sem lýsa sér með bæði eitrunaráhrifum á heyrn (heyrnartapi) og á jafnvægisskyn, af völdum amínóglýkósíða til notkunar utan meltingarvegar (parenteral). Eiturverkanir á jafnvægisskyn geta komið fram sem svimi, samhæfingarleysi eða sundl. Suð fyrir eyrum getur verið viðvörunareinkenni um eiturverkanir á heyrnartaug og því þarf að gæta varúðar verði þessa einkennis vart.

Greint var frá heyrnartapi og eyrnasuði hjá sjúklingum í klínísku rannsóknunum á TOBI Podhaler (sjá kafla 4.8). Gæta skal varúðar þegar TOBI Podhaler er ávísað fyrir sjúklinga með þekkta eða grun um heyrnarskerðingu eða jafnvægistruflun.

Hjá sjúklingum sem hafa einhver einkenni um heyrnarskerðingu og þeim sem hafa áhættuþætti fyrir heyrnarskerðingu gæti verið nauðsynlegt að íhuga heyrnarmælingu áður en meðferð með TOBI Podhaler er hafin.

Ef sjúklingur greinir frá suði fyrir eyrum eða heyrnartapi meðan á meðferð með TOBI Podhaler stendur ætti læknir að huga að því að fá heyrnarmælingu.

Sjá einnig „Eftirlit með þéttni tobramycins í sermi“ hér fyrir neðan.

Eiturverkanir á nýru

Greint hefur verið frá eiturverkunum á nýru af völdum amínóglýkósíða til notkunar utan meltingarvegar (parenteral). Engar eiturverkanir á nýru komu fram í klínískum rannsóknum á TOBI Podhaler. Gæta skal varúðar þegar TOBI Podhaler er ávísað fyrir sjúklinga með þekkta skerðingu á nýrnastarfsemi eða grun um slíkt. Mæla skal nýrnastarfsemi áður en meðferð er hafin. Endurtaka skal mælingar á þvagefni og kreatíníni eftir hverjar 6 lotur af TOBI Podhaler meðferð.

Sjá einnig kafla 4.2 og „Eftirlit með þéttni tobramycins í sermi“ hér fyrir neðan.

Eftirlit með þéttni tobramycins í sermi

Hafa skal eftirlit með þéttni tobramycins í sermi hjá sjúklingum sem hafa þekkta heyrnarskerðingu eða skerta nýrnastarfsemi, eða grunur leikur á slíku. Ef eiturverkanir á heyrn eða nýru koma fram hjá sjúklingi sem er á meðferð með TOBI Podhaler skal stöðva hana þar til sermisþéttni er komin undir

2 µg/ml.

Sermisþéttni hærri en 12 µg/ml hefur í för með sér eiturverkanir af völdum tobramycins og stöðva skal meðferð ef þéttnin fer yfir þessi mörk.

Hafa skal eftirlit með sermisþéttni tobramycins með viðurkenndum aðferðum. Ekki er mælt með blóðsýnatöku með fingurástungu vegna hættu á mengun sýnisins.

Berkjukrampi

Berkjukrampi getur átt sér stað við innöndun lyfja og greint hefur verið frá berkjukrampa við notkun TOBI Podhaler í klínískum rannsóknum. Veita skal viðeigandi meðferð við berkjukrampa.

Gefa skal fyrsta skammtinn af TOBI Podhaler undir eftirliti, eftir notkun berkjuvíkkandi lyfs ef sjúklingurinn er á slíkri meðferð. Mæla skal FEV1 fyrir og eftir innöndun TOBI Podhaler.

Ef vísbendingar eru um að um berkjukrampa af völdum meðferðar sé að ræða, ber lækninum að íhuga vandlega hvort ávinningur af áframhaldandi meðferð með TOBI Podhaler vegi þyngra en áhættan fyrir sjúklinginn. Ef grunur leikur á ofnæmisviðbrögðum skal stöðva meðferð með TOBI Podhaler.

Hósti

Greint hefur verið frá hósta við notkun TOBI Podhaler í klínískum rannsóknum. Samkvæmt niðurstöðum klínískra rannsókna var oftar greint frá hósta í tengslum við notkun innöndunarduftsins í TOBI Podhaler en notkun tobramycin lausnar fyrir eimgjafa (TOBI). Hóstinn tengdist ekki berkjukrampa. Börn yngri en 13 ára eru líklegri til að hósta þegar þau fá meðferð með TOBI Podhaler en þeir sem eldri eru.

Ef vísbendingar eru um áframhaldandi hósta af völdum meðferðar með TOBI Podhaler skal læknirinn íhuga hvort nota ætti viðurkennda tobramycin lausn fyrir eimgjafa í staðinn. Haldist hóstinn óbreyttur skal íhuga meðferð með öðrum sýklalyfjum.

Blóðugur uppgangur

Blóðugur uppgangur er fylgikvilli slímseigjusjúkdóms og er algengari hjá fullorðnum. Sjúklingar með blóðugan uppgang (>60 ml) voru útilokaðir frá klínísku rannsóknunum og liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um notkun TOBI Podhaler hjá þessum sjúklingum. Taka skal tillit til þessa áður en TOBI Podhaler er ávísað þar sem TOBI Podhaler innöndunarduft hefur tengst aukinni tíðni hósta (sjá hér að framan). Aðeins skal hefja eða halda áfram meðferð með TOBI Podhaler hjá sjúklingum með klínískt marktækan blóðuppgang ef ávinningurinn af meðferðinni er talinn vega þyngra en hættan á auknum blæðingum.

Aðrar varúðarráðstafanir

Hafa skal eftirlit með sjúklingum sem fá samhliða meðferð með amínóglýkósíðum utan meltingarvegar (parenteral) (eða öðrum lyfjum sem hafa áhrif á útskilnað um nýru, svo sem þvagræsilyfjum), eftir því sem við á klínískt, m.t.t. hættunnar á samanlögðum eiturverkunum. Þar með talið er eftirlit með sermisþéttni tobramycins. Hjá sjúklingum sem eru útsettir fyrir slíkri hættu vegna langvarandi fyrri altækrar (systemic) meðferðar með amínóglýkósíðum getur verið nauðsynlegt að íhuga mat á nýrnastarfsemi og heyrn áður en meðferð með TOBI Podhaler er hafin.

Sjá einnig „Eftirlit með þéttni tobramycins í sermi“ hér að framan.

Gæta skal varúðar þegar TOBI Podhaler er ávísað fyrir sjúklinga með þekkta taugavöðvasjúkdóma svo sem vöðvaslensfár og Parkinsons sjúkdóm, eða grun um slíkt. Amínóglýkósíðar geta aukið vöðvamáttleysi vegna hugsanlegra kúrare-líkra áhrifa á virkni taugavöðvamóta.

Myndun sýklalyfjaónæmrar P. aeruginosa og ofanísýkingar af völdum annarra sýkla eru hugsanlegar hættur sem tengjast sýklalyfjameðferð. Í klínískum rannsóknum varð hækkun á lágmarksheftistyrk (MIC) amínóglýkósíðs í prófun á P. aeruginosa stofnum, hjá sumum sjúklingum á TOBI Podhaler meðferð. Sú MIC hækkun sem átti sér stað gekk í flestum tilvikum til baka á þeim tímabilum sem sjúklingar voru ekki á meðferð.

Fræðilega er hætta á að sjúklingar sem eru á meðferð með TOBI Podhaler geti með tímanum myndað P. aeruginosa stofna sem eru ónæmir fyrir tobramycini til notkunar í bláæð (sjá kafla 5.1). Myndun ónæmis meðan á innöndunarmeðferð með tobramycini stendur gæti takmarkað meðferðarmöguleikana við bráða versnun. Fylgjast skal með þessu.

Niðurstöður rannsókna hjá mismunandi aldurshópum

Í rannsókn sem stóð í 6 mánuði (3 meðferðarlotur) þar sem gerður var samanburður á TOBI Podhaler og tobramycin lausn fyrir eimgjafa þar sem meirihluti sjúklinga voru fullorðnir sjúklingar með langvinna P. aeruginosa sýkingu í lungum og reynslu af meðferð með tobramycini, var minnkun á þéttni P. aeruginosa í hráka svipuð í öllum aldurshópum í báðum örmum rannsóknarinnar. Hins vegar var aukning FEV1 frá upphafsgildi meiri í yngri aldurshópunum (6-<20 ára) en í undirhópi fullorðinna (20 ára og eldri) í báðum örmum rannsóknarinnar. Sjá einnig kafla 5.1 hvað varðar svörun við TOBI Podhaler samanborið við tobramycin lausn fyrir eimgjafa. Hjá fullorðnum sjúklingum var meiri tilhneiging til að hætta á meðferð með TOBI Podhaler vegna þess að þeir þoldu ekki lyfið en á meðferð með lausn fyrir eimgjafa. Sjá einnig kafla 4.8.

Ef klínísk versnun á lungnastarfsemi er greinileg skal íhuga viðbótarmeðferð, eða aðra meðferð gegn pseudomonas bakteríum.

Greinilegan árangur af meðferðinni þ.e. betri lungnastarfsemi og bælingu á P. aeruginosa skal meta með tilliti til þess hve vel sjúklingurinn þolir TOBI Podhaler.

Rannsóknir á öryggi og verkun hafa ekki verið gerðar hjá sjúklingum með FEV1 <25% eða >75% af því sem áætla má, eða sjúklingum sem hafa Burkholderia cepacia sýklun.

4.5Milliverkanir við önnur lyf og aðrar milliverkanir

Ekki hafa verið gerðar neinar rannsóknir á milliverkunum TOBI Podhaler. Með tilliti til milliverkana tobramycins eftir gjöf í bláæð eða gjöf með úða, er ekki mælt með notkun TOBI Podhaler samhliða/eða á eftir öðrum lyfjum sem geta valdið eiturverkunum á nýru eða heyrnartaug.

Ekki er mælt með notkun TOBI Podhaler samhliða þvagræsilyfjum (svo sem etakrynsýru, fúrósemíði, úrea eða mannitóli gefnu í bláæð). Slík efnasambönd geta aukið eiturverkanir amínóglýkósíða með því að breyta þéttni sýklalyfjanna í sermi og vefjum.

Sjá einnig upplýsingar um fyrri notkun og samhliða altæka (systemic) meðferð með amínóglýkósíðum og þvagræsilyfjum í kafla 4.4.

Önnur lyf sem greint hefur verið frá að auki mögulegar eiturverkanir amínóglýkósíða til notkunar utan meltingarvegar (parenteral) eru m.a.:

-amfótericín B, cefalotin, ciclosporin, tacrolimus, polymyxin (hætta á auknum eiturverkunum á nýru);

-platínusambönd (hætta á auknum eiturverkunum á nýru og heyrnartaug);

-andkólínesterasar, botulinum eitur (áhrif á taugavöðvamót).

Í klínískum rannsóknum héldu sjúklingar sem fengu meðferð með TOBI Podhaler áfram að taka dornasa alfa, berkjuvíkkandi lyf, barkstera til innöndunar og makrólíða, en ekkert kom fram sem benti til milliverkana við þessi lyf.

4.6Frjósemi, meðganga og brjóstagjöf

Meðganga

Engar fullnægjandi upplýsingar liggja fyrir um notkun tobramycins til innöndunar á meðgöngu. Dýrarannsóknir benda ekki til þess að tobramycin valdi vansköpunum (sjá kafla 5.3). Hins vegar geta amínóglýkósíðar haft skaðleg áhrif á fóstur (t.d. valdið meðfæddu heyrnarleysi) ef blóðþéttni verður há hjá þungaðri konu. Altæk (systemic) útsetning fyrir lyfinu eftir innöndun TOBI Podhaler er mjög lítil, en engu að síður á ekki að nota TOBI Podhaler á meðgöngu nema brýna nauðsyn beri til, þ.e. þegar ávinningurinn fyrir móðurina vegur þyngra en hættan fyrir fóstrið. Greina verður konum sem nota TOBI Podhaler á meðgöngu, eða verða þungaðar meðan þær nota TOBI Podhaler, frá mögulegri hættu fyrir fóstrið.

Brjóstagjöf

Tobramycin skilst út í brjóstamjólk eftir altæka (systemic) notkun. Ekki er vitað hve mikið magn tobramycins skilst út í brjóstamjólk eftir innöndun, en talið er að það sé mjög lítið vegna þess hve altæk útsetning er lítil. Vegna mögulegra eiturverkana á heyrnartaug eða nýru hjá ungbörnum, skal taka ákvörðun um hvort hætta skuli brjóstagjöf eða stöðva meðferð með TOBI Podhaler með tilliti til þess hve mikilvæg meðferðin er fyrir móðurina.

Frjósemi

Engin áhrif á frjósemi komu fram í dýrarannsóknum, hvorki hjá karldýrum né kvendýrum, eftir gjöf undir húð (sjá kafla 5.3).

4.7Áhrif á hæfni til aksturs og notkunar véla

TOBI Podhaler hefur engin eða óveruleg áhrif á hæfni til aksturs og notkunar véla.

4.8Aukaverkanir

Samantekt öryggisupplýsinga

Algengustu skráðu aukaverkanirnar í helstu klínísku rannsókninni á öryggi þar sem gerður var samanburður á TOBI Podhaler og tobramycin lausn fyrir eimgjafa hjá sjúklingum með slímseigjusjúkdóm og P. aeruginosa sýkingu, voru hósti, hósti með uppgangi, hiti, mæði, særindi í munnkoki, raddbreytingar og blóðugur uppgangur.

Í samanburðarrannsókninni með lyfleysu og TOBI Podhaler komu eftirfarandi aukaverkanir oftar fram hjá þeim sem fengu TOBI Podhaler en þeim sem fengu lyfleysu: Særindi í nefkoki og barka, bragðskynstruflanir og raddbreytingar.

Mikill meirihluti skráðra aukaverkana af TOBI Podhaler voru vægar eða í meðallagi miklar og alvarleiki þeirra virtist ekki breytast milli meðferðarlota eða milli rannsóknarinnar í heild og tímabila á meðferð.

Samantekt á aukaverkunum, sett upp í töflu

Aukaverkanirnar í töflu 1 eru settar fram samkvæmt MedDRA flokkun eftir líffærum. Innan hvers líffæraflokks er aukaverkunum raðað eftir tíðni og eru algengustu aukaverkanirnar taldar upp fyrst. Innan tíðniflokka eru alvarlegustu aukaverkanirnar taldar upp fyrst. Að auki er samsvarandi tíðniflokkun samkvæmt CIOMS III gefin upp fyrir hverja aukaverkun: Mjög algengar (≥1/10); algengar (≥1/100 til <1/10); sjaldgæfar (≥1/1.000 til <1/100); mjög sjaldgæfar (≥1/10.000 til <1/1.000); koma örsjaldan fyrir (<1/10.000); tíðni ekki þekkt: ekki hægt að áætla tíðni út frá fyrirliggjandi gögnum.

Tíðnin sem gefin er upp í töflu 1 er byggð á skráðri tíðni í rannsókninni sem gerð var með virku samanburðarlyfi.

Tafla 1

Aukaverkanir

 

 

 

Aukaverkanir

Tíðniflokkur

 

 

Eyru og völundarhús

 

Heyrnartap

 

Algengar

Eyrnasuð

 

Algengar

Æðar

 

 

Blóðugur uppgangur

Mjög algengar

Blóðnasir

 

Algengar

Öndunarfæri, brjósthol og miðmæti

 

Mæði

 

Mjög algengar

Raddtruflanir

Mjög algengar

Hósti með uppgangi

Mjög algengar

Hósti

 

Mjög algengar

Blísturshljóð við öndun

Algengar

Hrygla

 

Algengar

Óþægindi fyrir brjósti

Algengar

Nefstífla

 

Algengar

Berkjukrampi

Algengar

Raddstol

 

Algengar

Mislitur hráki (sputum)

Tíðni ekki þekkt

Meltingarfæri

 

Særindi í munn- og nefkoki

Mjög algengar

Uppköst

Algengar

Niðurgangur

Algengar

Erting í koki

Algengar

Ógleði

Algengar

Bragðskynstruflanir

Algengar

Húð og undirhúð

 

Útbrot

Algengar

Stoðkerfi, stoðvefur og bein

 

Stoðkerfisverkir í brjóstkassa

Algengar

Almennar aukaverkanir og aukaverkanir á íkomustað

 

Hiti

Mjög algengar

Lasleiki

Tíðni ekki þekkt

Lýsing á völdum aukaverkunum

Hósti var algengasta skráða aukaverkunin í báðum klínísku rannsóknunum. Hins vegar komu engin tengsl fram, í hvorugri rannsókninni, milli tíðni berkjukrampa og hósta.

Í samanburðarrannsókninni með virku lyfi voru heyrnarmælingar gerðar á völdum rannsóknarsetrum og tóku til u.þ.b. fjórðungs þátttakenda í rannsókninni. Fjórir sjúklingar í meðferðarhópnum sem fékk TOBI Podhaler urðu fyrir verulegu heyrnartapi sem var tímabundið hjá þremur sjúklinganna en varanlegt í einu tilviki.

Hjá sjúklingum 20 ára og eldri var meiri tilhneiging til að hætta á meðferð með TOBI Podhaler en á meðferð með lausn fyrir eimgjafa, í opnu samanburðarrannsókninni með virku lyfi. Í um það bil helmingi tilvika voru aukaverkanir ástæðan fyrir því að meðferð var hætt og á það við um bæði lyfjaformin. Hjá börnum yngri en 13 ára var algengara að meðferð væri hætt hjá þeim sem fengu lausn fyrir eimgjafa (TOBI), en hjá sjúklingum á aldrinum 13 til 19 ára var tíðnin svipuð fyrir bæði lyfjaformin.

Tilkynning aukaverkana sem grunur er um að tengist lyfinu

Eftir að lyf hefur fengið markaðsleyfi er mikilvægt að tilkynna aukaverkanir sem grunur er um að tengist því. Þannig er hægt að fylgjast stöðugt með sambandinu milli ávinnings og áhættu af notkun lyfsins. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu samkvæmt fyrirkomulagi sem gildir í hverju landi fyrir sig, sjá Appendix V.

4.9Ofskömmtun

Aukaverkanir sem eru sérstaklega í tengslum við ofskömmtun TOBI Podhaler hafa ekki verið skilgreindar. Hámarksskammtur TOBI Podhaler sem þolist á sólarhring hefur ekki verið staðfestur. Mælingar á þéttni tobramycins í sermi geta verið gagnlegar við eftirlit með ofskömmtun. Ef vísbendingar um bráðar eiturverkanir koma fram er mælt með að meðferð með TOBI Podhaler sé hætt án tafar og rannsóknir gerðar á nýrnastarfsemi. Ef TOBI Podhaler hylki eru tekin inn í ógáti er ólíklegt að um eiturverkanir verði að ræða þar sem frásog tobramycins frá heilbrigðum meltingarvegi er lítið. Blóðskilun getur verið gagnleg til að fjarlægja tobramycin úr líkamanum.

5.LYFJAFRÆÐILEGAR UPPLÝSINGAR

5.1Lyfhrif

Flokkun eftir verkun: Bakteríulyf til altækrar notkunar (systemic use), Amínóglýkósíða-bakteríulyf, ATC-flokkur: J01GB01

Verkunarháttur

Tobramycin er amínóglýkósíð sýklalyf myndað af Streptomyces tenebrarius. Það verkar fyrst og fremst með því að trufla próteinmyndun sem leiðir til aukins gegndræpis frumuhimnunnar, síaukinnar sundrunar á frumuhylkinu (cell envelope) og að lokum til frumudauða. Það er bakteríudrepandi við þéttni sem er jöfn eða örlítið hærri en heftistyrkur.

Næmismörk

Staðfest næmismörk við gjöf tobramycins í æð eiga ekki við um gjöf lyfsins í úðalausn.

Í hráka sjúklinga með slímseigjusjúkdóm eru greinileg hamlandi áhrif á líffræðilega virkni amínóglýkósíða til innöndunar. Því er nauðsynlegt að þéttni tobramycins í hráka eftir innöndun sé um það bil tíu sinnum hærri en lágmarksheftistyrkur (MIC) eða meira til þess að hamla P. aeruginosa. Í samanburðarrannsókninni með virku lyfi höfðu a.m.k. 89% sjúklinga P. aeruginosa stofna með lágmarksheftistyrk sem var að minnsta kosti 15 sinnum lægri en meðalþéttni í hráka eftir notkun skammts, bæði í upphafi og í lok þriðju virku meðferðarlotunnar.

Næmi

Þar sem hefðbundin næmismörk eiga ekki við um lyf til innöndunar verður að gæta varúðar við skilgreiningu örvera í næmar og ónæmar með tilliti til tobramycins til innöndunar.

Klínískt mikilvægi breytinga á lágmarksheftistyrk tobramycins fyrir P. aeruginosa í meðferð sjúklinga með slímseigjusjúkdóm er ekki fullljóst. Klínískar rannsóknir á tobramycin lausn til innöndunar (TOBI) hafa sýnt smávægilega hækkun á lágmarksheftistyrk tobramycins, amikacins og gentamicins fyrir þá P. aeruginosa stofna sem prófaðir voru. Í opnu framhaldsrannsóknunum varð við hverja

6 mánaða meðferð til viðbótar, hækkun í þrepum af svipaðri stærðargráðu og kom fram í samanburðarrannsóknunum með lyfleysu sem stóðu í 6 mánuði.

Myndun ónæmis fyrir tobramycini verður eftir ýmsum ferlum. Meginferlið sem veldur ónæmi er útstreymi lyfsins og umbreytingarensím sem gera lyfið óvirkt. Sérstakt eðli langvinnra P. aeruginosa sýkinga hjá sjúklingum með slímseigjusjúkdóm, svo sem loftfirrðar aðstæður og há tíðni stökkbreytts erfðaefnis, geta einnig verið mikilvægir þættir í minnkuðu næmi P. aeruginosa hjá sjúklingum með slímseigjusjúkdóm.

Samkvæmt in vitro niðurstöðum og/eða reynslu fenginni úr klínískum rannsóknum má búast við því að örverur sem valda lungnasýkingum hjá sjúklingum með slímseigjusjúkdóm sýni eftirfarandi svörun við TOBI Podhaler:

Næmar

Pseudomonas aeruginosa

 

Haemophilus influenzae

 

Staphylococcus aureus

Ónæmar

Burkholderia cepacia

 

Stenotrophomonas maltophilia

 

Alcaligenes xylosoxidans

Klínísk reynsla

TOBI Podhaler III. stigs klíníska þróunaráætlunin samanstóð af tveimur rannsóknum og

612 sjúklingum á meðferð, sem fengið höfðu klíníska greiningu á slímseigjusjúkdómi, staðfesta með magngreiningu á pilokarpin fareindaklóríðprófi á svita, eða mjög dæmigerðum sjúkdómsvaldandi stökkbreytingum á öllum CFTR (cystic fibrosis transmembrane regulator) genum, eða óeðlilegum niðurstöðum úr mælingum á NPD (nasal transepithelial potential difference) sem eru einkennandi fyrir slímseigusjúkdóm.

Ísamanburðarrannsókninni með lyfleysu voru sjúklingar á aldrinum 6 - ≤22 ára með FEV1 við skimun 25% og 84% af áætluðum eðlilegum gildum fyrir aldur, kyn og hæð samkvæmt Knudson skilyrðum. Í samanburðarrannsóknunum með virku lyfi voru allir sjúklingarnir >6 ára (á aldrinum 6-66 ára) með

áætlaða FEV1 % við skimun á bilinu 24% til 76%. Að auki voru allir sjúklingarnir sýktir af P. aeruginosa sem sýnt var fram á með jákvæðu hrákasýni eða hálsstroki (eða berkjuskoli) á

síðastliðnum 6 mánuðum fyrir skimun og einnig í ræktun hrákasýnis sem tekið var við skimun.

Íslembiraðaðri, tvíblindri, fjölsetra, samanburðarrannsókn með lyfleysu voru 112 mg af TOBI Podhaler (4 x 28 mg hylki) gefin tvisvar á sólarhring, í þremur lotum þar sem sjúklingar voru 28 daga á meðferð og 28 daga án meðferðar (meðferðartímabilið var alls 24 vikur). Sjúklingar sem slembiraðað var í hópinn sem fékk lyfleysu fengu lyfleysu í fyrstu meðferðarlotunni og TOBI Podhaler í hinum tveimur lotunum. Sjúklingar í þessari rannsókn höfðu ekki fengið tobramycin til innöndunar í að minnsta kosti 4 mánuði áður en rannsóknin hófst.

TOBI Podhaler jók lungnastarfsemi marktækt í samanburði við lyfleysu, eins og fram kemur í hlutfallslegri aukningu á áætluðu hundraðshlutfalli FEV1, sem var u.þ.b. 13% eftir 28 daga meðferð. Sá bati á lungnastarfsemi sem náðist í fyrstu meðferðarlotunni hélst í hinum tveimur síðari meðferðarlotunum með TOBI Podhaler.

Þegar sjúklingar sem voru í hópnum sem fékk lyfleysu voru settir yfir á TOBI Podhaler í stað lyfleysu í upphafi annarrar meðferðarlotu, náðu þeir svipaðri aukningu frá upphafsgildum á áætluðu FEV1 hundraðshlutfalli. Meðferð með TOBI Podhaler í 28 daga leiddi til tölfræðilega marktækrar lækkunar á þéttni P. aeruginosa í hráka (meðalmunur m.t.t. lyfleysu um það bil 2,70 log10 á fjölda þyrpinga (colony forming units, CFU)).

Í annarri opinni, fjölsetra rannsókn fengu sjúklingarnir meðferð annað hvort með TOBI Podhaler (112 mg) eða tobramycini 300 mg/5 ml lausn fyrir eimgjafa (TOBI), tvisvar á sólarhring í þrjár meðferðarlotur. Meirihluti sjúklinga voru fullorðnir sjúklingar sem höfðu áður fengið tobramycin meðferð og voru með langvinna P. aeruginosa sýkingu.

Meðferð með bæði TOBI Podhaler og tobramycin 300 mg/5 ml lausn fyrir eimgjafa (TOBI) leiddi til hlutfallslegrar aukningar frá upphafsgildum að 28. degi þriðju meðferðarlotu á áætluðu hundraðshlutfalli FEV1 um 5,8% og 4,7%, í hvoru tilviki fyrir sig. Aukningin á áætluðu hundraðshlutfalli FEV1 var tölulega hærri hjá hópnum sem fékk meðferð með TOBI Podhaler og var tölfræðilega ekki lakari (non-inferior) en hjá þeim sem fengu TOBI lausn fyrir eimgjafa. Þrátt fyrir að umfang aukningar á lungnastarfsemi hafi verið minna í þessari rannsókn, skýrist það af fyrri útsetningu þessa sjúklingahóps fyrir meðferð með tobramycini til innöndunar. Meira en helmingur sjúklinganna bæði hjá hópnum sem fékk TOBI Podhaler og hópnum sem fékk TOBI lausn fyrir eimgjafa fékk nýtt (viðbótar) sýklalyf gegn Pseudomonas (64,9% og 54,5% í hvoru tilviki fyrir sig, en mismunurinn var aðallega vegna notkunar ciprofloxacins til inntöku). Hlutfall sjúklinga sem þurftu á sjúkrahúsinnlögn að halda vegna öndunarerfiðleika var 24,4% hjá þeim sem fengu TOBI Podhaler og 22,0% hjá þeim sem fengu TOBI lausn fyrir eimgjafa.

Svörun FEV1 var breytileg eftir aldri. Hjá sjúklingum sem voru <20 ára var aukningin frá upphafsgildi áætlaðs hundraðshlutfalls FEV1 meiri: 11,3% fyrir TOBI Podhaler og 6,9% fyrir lausn fyrir eimgjafa eftir 3 lotur. Tölulega lægri svörun kom fram hjá sjúklingum ≥20 ára: breytingin frá upphafsgildi FEV1 sem fram kom hjá sjúklingum sem voru ≥20 ára var minni (0,3% með TOBI Podhaler og 0,9% með TOBI lausn fyrir eimgjafa).

Ennfremur jókst áætlað hundraðshlutfall FEV1 um 6% hjá um 30% fullorðinna sjúklinga hjá þeim sem fengu TOBI Podhaler, en um 36% hjá þeim sem fengu TOBI lausn fyrir eimgjafa.

Meðferð með TOBI Podhaler í 28 daga leiddi til tölfræðilega marktækrar lækkunar á þéttni

P. aeruginosa í hráka (-1,61 log10 CFU), sem og meðferð með lausn fyrir eimgjafa (-0,77 log10 CFU). Bæling á þéttni P. aeruginosa í hráka var svipuð í öllum aldurshópum í báðum örmum rannsóknarinnar. Í báðum rannsóknunum var tilhneiging til aukningar á þéttni P. aeruginosa eftir

28 daga án meðferðar, en sú aukning gekk til baka eftir aðra 28 daga á meðferð.

Í rannsókninni, sem gerð var með virku samanburðarlyfi, tók gjöf TOBI Podhaler skammts styttri tíma, mismunurinn var að meðaltali um það bil 14 mínútur (6 mínútur samanborið við 20 mínútur með lausn fyrir eimgjafa). Samkvæmt sjúklingunum voru þægindi og ánægja með meðferðina í heild (samkvæmt spurningalistum sem sjúklingar fylltu út) staðfastlega meiri með TOBI Podhaler samanborið við tobramycin lausn fyrir eimgjafa, í öllum meðferðarlotum.

Sjá upplýsingar um öryggi í kafla 4.8.

Börn

Lyfjastofnun Evrópu hefur fallið frá kröfu um að lagðar verði fram niðurstöður úr rannsóknum á TOBI Podhaler hjá öllum undirhópum barna við meðferð við lungnasýkingu/gerlamyndun af völdum pseudomonas aeruginosa hjá sjúklingum með slímseigjusjúkdóm (cystic fibrosis) (sjá upplýsingar í kafla 4.2 um notkun handa börnum).

5.2Lyfjahvörf

Frásog

Gera má ráð fyrir að altæk (systemic) útsetning fyrir tobramycini eftir innöndun TOBI Podhaler komi fyrst og fremst frá því sem andað er inn af lyfinu þar sem tobramycin frásogast ekki frá meltingarvegi, svo teljandi sé, þegar það er gefið til inntöku.

Þéttni í sermi

Eftir innöndun 112 mg staks skammts (4 x 28 mg hylki) af TOBI Podhaler hjá sjúklingum með slímseigjusjúkdóm, var hámarksþéttni tobramycins í sermi (Cmax) 1,02 ± 0,53 μg/ml (meðaltal ± SD) og miðgildi tímans að hámarksþéttni (Tmax) var ein klukkustund. Til samanburðar, var Cmax

1,04 ± 0,58 µg/ml og miðgildi Tmax ein klukkustund eftir innöndun eins skammts af tobramycin

300 mg/5 ml lausn fyrir eimgjafa (TOBI). Umfang altækrar útsetningar (AUC) var einnig svipað fyrir 112 mg skammt af TOBI Podhaler og 300 mg skammt af tobramycin lausn fyrir eimgjafa. Í lok 4-vikna meðferðarlotu með TOBI Podhaler (112 mg tvisvar á sólarhring), var hámarksþéttni tobramycins í sermi 1 klst. eftir gjöf skammtsins 1,99 ± 0,59 µg/ml.

Þéttni í hráka

Eftir innöndun 112 mg staks skammts (4 x 28 mg hylki) af TOBI Podhaler hjá sjúklingum með slímseigjusjúkdóm, var Cmax fyrir tobramycin í hráka 1047 ± 1080 µg/g (meðaltal ± SD). Til samanburðar, var Cmax í hráka 737,3 ± 1028,4 µg/g eftir innöndun eins 300 mg skammts af tobramycin lausn fyrir eimgjafa (TOBI). Breytileiki lyfjahvarfafræðilegra breyta var meiri i hráka en í sermi.

Dreifing

Mat var lagt á áætlað dreifingarrúmmál tobramycins í blóði (central compartment) með lyfjahvarfafræðilegri greiningu á TOBI Podhaler hjá sjúklingum með slímseigjusjúkdóm og var það áætlað 84,1 lítri hjá dæmigerðum sjúklingi með slímseigjusjúkdóm. Sýnt var fram á að rúmmálið var breytilegt eftir líkamsþyngdarstuðli (BMI) og lungnastarfsemi (áætlaðri skv. FEV1 %), en

eftirhermulíkan sýndi að hámarksþéttni (Cmax) og lágmarksþéttni (Ctrough) breyttist ekki að neinu marki með breytingum á líkamsþyngdarstuðli eða lungnastarfsemi.

Umbrot

Tobramycin umbrotnar ekki og skilst aðallega út á óbreyttu formi í þvagi.

Brotthvarf

Brotthvarf tobramycins úr blóðrásinni verður aðallega með gauklasíun óbreytta forms lyfsins. Endanlegur helmingunartími tobramycins í sermi eftir innöndun staks 112 mg skammts af TOBI Podhaler var um það bil 3 klukkustundir hjá sjúklingum með slímseigjusjúkdóm og í samræmi við helmingunartíma tobramycins eftir innöndun tobramycin 300 mg/5 ml lausnar fyrir eimgjafa (TOBI).

Samkvæmt lyfjahvarfafræðilegri greiningu á TOBI Podhaler hjá sjúklingum með slímseigjusjúkdóm á aldrinum 6 til 66 ára er úthreinsun tobramycins úr sermi 14 l/klst. Þessi greining sýndi ekki mismun á lyfjahvörfum með tilliti til kyns eða aldurs.

5.3Forklínískar upplýsingar

Forklínískar upplýsingar benda til að aðalhættan fyrir menn, á grundvelli hefðbundinna rannsókna á lyfjafræðilegu öryggi, eiturverkunum eftir endurtekna skammta, eiturverkunum á erfðaefni og eiturverkunum á æxlun, sé eiturverkanir á nýru og heyrnartaug. Yfirleitt koma eiturverkanir fram við hærri altæka (systemic) þéttni tobramycins en þá þéttni sem mögulegt er að ná með innöndun ráðlagðra klínískra skammta.

Rannsóknir á krabbameinsvaldandi áhrifum tobramycins til innöndunar sýna ekki aukningu á tíðni neinnar tegundar æxla. Tobramycin sýndi enga tilhneigingu til eiturverkana í röð prófana á eiturverkunum á erfðaefni.

Engar rannsóknir á eiturverkunum á æxlun hafa verið gerðar á tobramycini til innöndunar. Hins vegar olli gjöf tobramycins undir húð meðan á líffæramyndun stóð ekki vansköpunum né eiturverkunum á fóstur. Séu kvenkyns kanínum gefnir skammtar sem hafa miklar eiturverkanir á þær sjálfar (þ.e. eiturverkanir á nýru) leiðir það til fósturláta og dauða. Samkvæmt fyrirliggjandi niðurstöðum út dýrarannsóknum er ekki hægt að útiloka hættu á eiturverkunum (t.d. á heyrnartaug) af útsetningu fyrir lyfinu í móðurkviði.

Gjöf tobramycins undir húð hafði ekki áhrif á hegðun dýra m.t.t. mökunar og olli ekki skerðingu á frjósemi, hvorki hjá karlkyns né kvenkyns rottum.

6.LYFJAGERÐARFRÆÐILEGAR UPPLÝSINGAR

6.1Hjálparefni

Innihald hylkis

1,2-distearoyl-sn-glycero-3-phosphokolin (DSPC) Kalsíumklóríð

Brennisteinssýra (til að stilla sýrustig)

6.2Ósamrýmanleiki

Á ekki við.

6.3Geymsluþol

3 ár.

Fargið Podhaler innöndunartækinu og hulstrinu utan af því 1 viku eftir fyrstu notkun þess.

6.4Sérstakar varúðarreglur við geymslu

TOBI Podhaler hylki á alltaf að geyma í þynnunni til varnar gegn raka og einungis skal taka þau úr henni rétt fyrir notkun.

6.5Gerð íláts og innihald

Hörðu hylkin eru í PVC/PA/Ál/PVC- PET/Ál þynnum.

Podhaler innöndunartækið og geymsluhulstrið eru úr plastefnum (polypropylen).

TOBI Podhaler er í mánaðarpakkningum sem innihalda 4 vikupakkningar og viðbótar Podhaler innöndunartæki í geymsluhulstri. Hver vikupakkning inniheldur 56 x 28 mg hylki (7 þynnur með 8 hylkjum í hverri þynnu) og Podhaler innöndunartæki í geymsluhulstri.

Pakkningastærðir:

56 hylki og 1 innöndunartæki

224 (4 x 56) hylki og 5 innöndunartæki (fjölpakkning fyrir einn mánuð)

448 (8 x 56) hylki og 10 innöndunartæki (2 x fjölpakkning fyrir einn mánuð vafin í þynnu)

Ekki er víst að allar pakkningastærðir séu markaðssettar.

6.6Sérstakar varúðarráðstafanir við förgun og önnur meðhöndlun

Eingöngu má nota TOBI Podhaler hylki í Podhaler innöndunartækið. Ekki má nota neitt annað innöndunartæki. TOBI Podhaler hylki skal ávallt geyma í þynnunni (hylkjaspjaldinu) og einungis skal taka þau úr henni rétt fyrir notkun. Hvert innöndunartæki og hulstur á aðeins að nota í sjö daga og síðan skal þeim fargað og ný tekin í notkun. Geymið Podhaler innöndunartækið í vel lokuðu hulstrinu þegar það er ekki í notkun.

Grunnleiðbeiningar um notkun eru gefnar hér að neðan, nánari leiðbeiningar er að finna í fylgiseðli fyrir sjúklinga.

1.Þvoðu hendur og þurrkaðu, þar til þær eru alveg þurrar.

2.Taktu Podhaler tækið úr hulstrinu rétt fyrir notkun. Skoðaðu innöndunartækið til þess að tryggja að það sé ekki skemmt eða óhreint.

3.Haltu utan um innöndunartækið sjálft og skrúfaðu munnstykkið af því. Leggðu munnstykkið til hliðar á hreint og þurrt yfirborð.

4.Aðskildu morgunskammtinn frá kvöldskammtinum á hylkjaspjaldinu.

5.Flettu álþynnunni af hylkjaspjaldinu þar til eitt TOBI Podhaler hylki kemur í ljós og taktu það úr spjaldinu.

6.Settu hylkið strax í hólfið á innöndunartækinu. Settu munnstykkið aftur á og skrúfaðu það þétt á þar til það stöðvast. Ekki herða um of.

7.Til þess að gata hylkið áttu að halda innöndunartækinu þannig að munnstykkið vísi niður á við, þrýsta takkanum með þumalfingri eins langt inn og hægt er og sleppa honum síðan.

8.Andaðu alveg frá þér fjarri innöndunartækinu.

9.Leggðu varirnar þétt utan um munnstykkið. Andaðu duftinu djúpt að þér í einum samfelldum andardrætti.

10.Taktu innöndunartækið úr munninum og haltu niðri í þér andanum í um það bil 5 sekúndur, andaðu síðan eðlilega frá þér fjarri innöndunartækinu.

11.Eftir nokkra eðlilega andardrætti fjarri innöndunartækinu áttu að anda aftur að þér úr sama hylkinu.

12.Skrúfaðu síðan munnstykkið af og fjarlægðu hylkið úr hólfinu.

13.Skoðaðu notaða hylkið. Það á að vera gatað og tómt.

Ef hylkið er gatað en inniheldur ennþá duft skaltu setja það aftur í innöndunartækið og anda aftur að þér tvisvar úr hylkinu. Skoðaðu hylkið aftur.

Ef hylkið virðist vera ógatað skaltu setja það aftur í innöndunartækið, þrýsta takkanum eins langt inn og hægt er og anda aftur tvisvar að þér úr hylkinu. Ef hylkið er enn fullt eftir þetta og virðist vera ógatað, skiptu þá um innöndunartæki og reyndu aftur.

14.Fleygðu tóma hylkinu.

15.Endurtaktu, frá skrefi 5, með hylkjunum þremur sem eru eftir af skammtinum.

16.Settu munnstykkið aftur á og skrúfaðu það þétt á þar til það stöðvast. Þegar þú hefur andað að þér öllum skammtinum (4 hylkjum) skaltu þurrka af munnstykkinu með hreinum, þurrum klúti.

17.Settu öndunartækið aftur í geymsluhulstrið og lokaðu því vel. Innöndunartækið á aldrei að þvo með vatni.

Sjá einnig kafla 4.2.

Farga skal öllum lyfjaleifum og/eða úrgangi í samræmi við gildandi reglur.

7.MARKAÐSLEYFISHAFI

Novartis Europharm Limited

Frimley Business Park

Camberley GU16 7SR

Bretland

8.MARKAÐSLEYFISNÚMER

EU/1/10/652/001-003

9.DAGSETNING FYRSTU ÚTGÁFU MARKAÐSLEYFIS/ENDURNÝJUNAR MARKAÐSLEYFIS

Dagsetning fyrstu útgáfu markaðsleyfis: 20. júlí 2011

Nýjasta dagsetning endurnýjunar markaðsleyfis:

10.DAGSETNING ENDURSKOÐUNAR TEXTANS

Ítarlegar upplýsingar um lyfið eru birtar á vef Lyfjastofnunar Evrópu http://www.ema.europa.eu

Athugasemdir

A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z
  • Hjálp
  • Get it on Google Play
  • Um okkur
  • Info on site by:

  • Presented by RXed.eu

  • 27558

    skráð lyfseðilsskylt lyf